Skoðun

Leiðin úr kreppunni

Stefán Ólafsson skrifar

Að missa vinnuna til lengri tíma er dauðans alvara. Að missa húsnæði ofan af fjölskyldunni er líka dauðans alvara. Að reka grunnskóla, orkuveitu, velferðarþjónustu og samgöngukerfi er alvörumál. Að ráðstafa miklum skattpeningum almennings er mikið ábyrgðar- og alvörumál.

Við Íslendingar súpum nú seyðið af því að hafa látið róttæka frjálshyggjumenn leiða samfélagið í þrot. Frjálshyggjumenn höfðu oftrú á markaði, auðmönnum og bröskurum og leyfðu þeim að ræna samfélagið. Í krafti afskiptaleysisstefnu frjálshyggjunnar stigu stjórnmálamenn til hliðar og gerðust áhorfendur þegar auðmenn sugu fé út úr bönkum og fyrirtækjum og skildu eftir fjallháar skuldir hvert sem litið er. Samfélagið þarf nú að takast á við það.

Þessi skelfilega framvinda sem varð frá um 1998 til 2008 á að vera okkur öllum alvöru lexía. Við þurfum að bregðast við af festu. Efla lýðræðið og stjórnsýsluna, en hemja markaðinn og auðmennina. Stjórnmál þurfa að vera þess megnug að verja hag almennings gegn sérhagsmunum gráðugra braskara. Ríkisstjórnin sem nú situr hefur sett sér að sækja fyrirmyndir til norrænu velferðarríkjanna. Það er gott því þar er að finna farsælustu samfélög jarðarinnar. Ríkisstjórnin er reyndar að ná mikilvægum árangri við endurreisnina, þrátt fyrir óvenju erfiðar aðstæður og mikið mótlæti.

Borgaryfirvöld hafa líka stórt hlutverk í endurreisninni. Þótt stjórnmál frjálshyggjunnar í Sjálfstæðisflokknum hafi brugðist með skelfilegum afleiðingum eigum við ekki að afneita lýðræðinu. Við eigum að bæta það. Stefna því í rétta átt. Saga 20. aldarinnar kennir okkur að jafnaðarmenn hafa haft bestu stefnuna til að vinna bug á djúpum kreppum. Það var reyndin í kreppunni miklu á 4. áratugnum, bæði hjá norrænu þjóðunum og á stjórnartíma Roosevelt forseta í Bandaríkjunum. Svo er enn. Við Reykvíkingar eigum nú að kjósa heiðarlega fulltrúa slíkra sjónarmiða í Samfylkingu, VG eða Framsóknarflokki. Við eigum að forðast frjálshyggjufólk og ábyrgðarlausa grínara sem mæla glottandi með kókaínneyslu. Þetta er alvörumál. Lýðræðið á að efla en ekki gera það hlægilegra en varð á frjálshyggjutímanum. Vettvangur grínaranna er bestur annars staðar.




Skoðun

Sjá meira


×