Skoðun

Hver er hættan af samstarfi kirkju og skóla?

Ása Kristín Margeirsdóttir skrifar

Ályktun mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar um að meina kirkjunni aðgang að skólum felur í sér mikla stefnubreytingu. Hingað til hafa prestar og djáknar heimsótt skólana í margvíslegum tilgangi, í gleði og sorg. Þær heimsóknir helgast einkum af þrennu:

  • Kristindómurinn er nátengdur sögu landsins og menningu og því þarf að kynna börnunum helstu þætti kristinnar trúar. Hefðbundin trúarbragðafræðsla hrekkur skammt til þess arna. Í gegnum tíðina hafa þjónar kirkjunnar miðlað þeim arfi til barnanna.
  • Mikil og sterk söguleg tengsl eru á milli kirkju og skóla. Lengi vel annaðist kirkjan uppfræðslu barna almennt í landinu, en á síðari tímum hefur aðkoma kirkjunnar jafnan verið mikil að skólahaldi.

  • Skólayfirvöld hafa leitað til kirkjunnar vegna þeirrar góðu þjónustu sem kirkjan veitir. Innan vébanda kirkjunnar starfar fagfólk sem veitt getur mikilvægan stuðning, til dæmis þegar áföll dynja á.

    Það þarf sterk rök ef á að rjúfa þessi tengsl. Eðlilegt er að gera þá kröfu til þeirra sem halda henni á lofti að benda á þann skaða sem hlotist hefur af mikilli samvinnu kirkju og skóla í gegnum tíðina. Ef hér er hætta á ferðum hljóta afleiðingarnar að blasa við þegar horft er á íslenskt samfélag. Því er sjálfsagt að spyrja:

  • Hafa öfgafull trúarsamtök skotið hér rótum? Sú er alls ekki raunin. Svo kallaðir bókstafstrúar­menn eru hverfandi hluti þjóðarinnar - ólíkt því sem sjá má til dæmis vestan­hafs. Boðun kirkjunnar hefur miðlað umburðarlyndi í trúarlegum efnum, sem hefur fremur virkað sem mótvægi á öfgarnar en jarðvegur fyrir þær.

  • Á vísindaleg hugsun erfitt uppdráttar hérlendis? Samkvæmt könnunum eru Íslendingar afar jákvæðir í garð vísinda, og eru meðal efstu þjóða í þeim efnum. Hér hafnar vart nokkur maður þróunarkenningunni ólíkt því sem er í Bandaríkjunum í því opinbera trúleysi sem þar er staðfest í stjórnarskránni. Aftur má greina að boðskapur kirkjunnar er jákvæður og byggir á samvinnu milli ólíkra sviða lífsins fremur en átökum þar á milli.

    n Búa aðrir trúarhópar eða trúleysingjar við ofsóknir hérlendis? Vissulega kunna menn að svara þeirri spurningu með ólíkum hætti en sé horft til löggjafar og stjórnarskrár verður ekki séð að frelsi þeirra sé skert með óeðlilegum hætti. Það takmarkast aðeins af þeim áhrifum sem athafnafrelsið kann að hafa á aðra, rétt eins og gildir almennt í þessum efnum. Rík þátttaka kirkjunnar í starfsemi skólanna hefur fremur leitt til víðsýni á þessu sviði sem öðrum.

Samfélagið verður fjölbreyttara og menningin sækir áhrif víða. Það breytir ekki þeirri staðreynd að æða- og taugakerfi íslensks samfélags teygir sig aftur í aldirnar. Formæður og forfeður barnanna okkar og kennaranna lifðu og hrærðust í kristinni trú. Þau lesa bækur, sögur, ljóð og frásagnir, sem eru afsprengi þeirrar menningar. Hið sama má segja um lögin og siðferðið og annað það sem gerir menningu okkar að því sem hún er - með kostum sínum og göllum.

Með ákvörðun sinni vill Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar rjúfa langa og farsæla hefð. Hver er sá skaði sem hún vill forða skólunum og menningunni frá?






Skoðun

Sjá meira


×