Lífið

Kolbrún Pálína nýr ritstjóri Nýs lífs

Kolbrún Pálína segir ætlunina að leggja meiri áherslu á tískuumfjöllun í Nýju lífi.
Kolbrún Pálína segir ætlunina að leggja meiri áherslu á tískuumfjöllun í Nýju lífi.

„Ég fékk stóra þrítugsafmælisgjöf, draumastarfið," segir Kolbrún Pálína Helgadóttir sem er þessa dagana að setja sig inn í nýtt starf sem ritstjóri á tímaritinu Nýtt líf. Kolbrún Pálína varð þrítug í gær, 9. maí og margt er um að vera þessa dagana því hún er nýkomin úr fæðingarorlofi. Kolbrún hefur undanfarin þrjú ár unnið sem blaðamaður á DV en starfaði þar áður sem lausapenni á tímaritum, þar á meðal Nýju lífi, Mannlífi og Ísafold, auk þess að sinna starfi einkaþjálfara í Sporthúsinu.

„Ég hóf að skrifa pistla fyrir tíu árum á vefsíðuna sem þá var og hét strik.is og var eiginlega skikkuð til þess í byrjun eftir að ég var valin ungfruisland.is - það var hluti af starfi handhafa þess titils þá. Ég fann samt strax að skrifin áttu vel við mig og hef skrifað alltaf eitthvað síðan, um heilsu, tísku og fleira," segir Kolbrún og bætir við að hún hafi svo lært flestallt sem hún kunni í dag í blaðamennsku hjá DV. „Ég verð ekki langt undan gamla vinnustaðnum, við erum í sama húsi."

Kolbrún á rætur sínar að rekja til Kópavogs, ólst þar upp, en býr í dag í Mosfellsbæ ásamt eiginmanni sínum, Þresti Jóni Sigurðssyni. Hún á tvö börn, Sigurð Viðar, sex ára og svo Tinnu Karítas, 10 mánaða.

„Fyrsta blaðið fer í prentun í vikunni og kemur út síðustu vikuna í maí þannig að ég frestaði afmælishöldum um nokkra daga. Ég stefni á að fara í hæla og skála aðeins við nánustu ættingja og vini um næstu helgi. Ég er að koma fyrsta blaðinu frá mér og mér líður eins og ég sé að koma aftur heim að fara í tímaritaútgáfuna á ný," segir Kolbrún en hún þekkir margar hliðar tímaritanna, vann í mörg ár við að farða fyrir tímarit og hefur setið fyrir á myndum sem módel. Nýja starfið mun að hennar sögn sameina áhugamálin, svo sem heilsu og tísku, en ætlunin er að leggja meiri áherslu á tískuumfjöllun í Nýju lífi.

„Já, það er stefnan, að gera blaðið að tískublaði aftur og snúa þannig aftur til þeirrar línu sem Nýtt líf var á. Fólk hefur þörf fyrir gleði og jákvæðar fréttir á þessum tímum og við ætlum að vera duglegar að hrósa konum í þjóðfélaginu. Þetta verður konublað aftur og við viljum að lesendum líði vel við að sökkva sér ofan í tímaritalesturinn."

juliam@frettabladid.is










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.