Skoðun

Það ætti að rassskella suma ráðamenn

Sigurður H. Jóhannesson skrifar

Nýjasta útspil í sparnaði Sjúkratrygginga Íslands er að afturkalla heimahjúkrun. Þarna er verið að ráðast á garðinn þar sem hann er ekki til staðar. Hversu lágt er hægt að leggjast þegar ráðist er á langveik börn sem ekki geta varið sig með því að taka frá þeim heimahjúkrun. Foreldrar þessara barna eru yfirleitt svo örmagna að þeir hafa heldur ekki kraft til að bíta frá sér. Fólkið sem er ábyrgt fyrir þessu ætti að skammast sín og segja upp strax ef þetta er það eina sem þeim dettur í hug til að spara. Hvað með stjórnlagaþing þar sem verið er að eyða 500 milljónum að minnsta kosti? Sendiráð sem eru dekkuð upp fyrir 700 milljónir? Hvernig væri að fara að kenna þessu fólki stærðfræði aftur?

Svona lítur dæmið út: Fyrir eina heimsókn heimahjúkrunar borgar ríkið 10.000 kr. Fyrir innlögn í einn dag borgar ríkið 130.000 kr. Foreldrar langveikra barna spara ríkinu 120.000 kr. á dag með því að hafa barnið heima.

Á einum mánuði spara foreldrar langveikra barna ríkinu 3.600.000 kr. ef barnið væri heimsótt á hverjum degi en svo er ekki þannig að sparnaður er meiri. Þetta gera 43.200.000 á ári á hvert barn. Þetta er raunverulegur sparnaður. Vilja ráðamenn fá þessi 80 langveiku börn inn á spítalann aftur? Það myndi kosta 3.456 milljónir á ári í auknum framlögum ríkisins ef öll þessi börn legðust inn sem þau hafa fullan rétt á að gera. Þrjúþúsund fjögurhundruðfimmtíuogsexmilljónir á ári. Það er því ekki flókið að sjá að það er alls enginn sparnaður fólginn í því að leggja niður heimahjúkrun þvert á móti miklu, miklu meiri kostnaður.

Er ekki réttara að klappa foreldrunum á bakið, þakka þeim kærlega fyrir að halda börnunum sínum heima og jafnvel rétta þeim frekari hjálparhönd heldur en að stinga þá svona rækilega í bakið?

Ef þetta er eitthvert pólitískt útspil af hálfu Sjúkratrygginga til að fá frekari fjárlög þá er það ómaklegt að spila svona með langveik börn og fjölskyldur þeirra.

Það ætti að taka þessa ráðamenn á hné og rassskella þá rækilega á miðju Lækjartorgi til að fá þá til að vakna til lífsins. Þeir þurfa að gera sér grein fyrir því að það eru ekki allir með milljón á mánuði fyrir að taka rangar ákvarðanir ofan í rangar ákvarðanir og fá að halda vinnunni. Sum okkar þurfa að bera ábyrgð á gjörðum okkar.






Skoðun

Sjá meira


×