Skoðun

Hvernig stjórnlagaþing viljum við?

Kristín Guðmundsdóttir skrifar

Við val á einstaklingum til setu á stjórnlagaþingi þarf að hafa í huga að samsetning þingsins verði þannig að það náist sem breiðastur hópur. Breiðastur í þeim skilningi að hægt verði að nýta fjölþætta reynslu einstaklinganna við þá flóknu vinnu og umræðu sem þar á eftir að fara fram. Það eru gömul sannindi og ný að öll hópavinna byggist á styrkleikum einstaklinga sem taka þátt og útkoman verður eftir því.

Persónuleiki fólks og styrkur mótast meðal annars af reynslu. Það eru margir samverkandi þættir sem móta einstaklinginn á lífsleiðinni og skapa þannig persónuna og það sem hún stendur fyrir. Þetta þarf að hafa í huga þegar við göngum að kjörkössunum og kjósum til stjórnlagaþings. Guðmundur Vignir Óskarsson er einn þeirra einstaklinga sem gæfi slíku starfi verulega vigt. Hann hefur þá reynslu sem á þarf að halda við vinnu á Stjórnlagaþingi, þar sem reynir á að fólk vinni saman að sameiginlegu markmiði. Hann er vanur að rökstyðja mál sitt á málefnalegan hátt og jafnframt að taka rökum annarra. Guðmundur Vignir stendur fyrir jöfnuð og mannrækt . Hann ætlar að vinna sérstaklega að því að stjórnarskráin verði endurskoðuð með tilliti til mannréttinda, að lýðræðið sé virkt, sjálfstæði löggjafavaldsins og að auðlyndir Íslendinga verði í þjóðareign.

Guðmundur Vignir hefur hinn almenna borgara í huga í þeim áherslum sem hann stendur fyrir, enda kemur hann úr grasrótinni með mikla reynslu af störfum með fólki. Undirrituð er ein af fjölmörgum stuðningsmönnum Guðmundar Vignis Óskarssonar til setu á stjórnlagaþingið. Guðmundi treysti ég til þeirra starfa sem ég tel að þurfi í það starf sem framundan er.






Skoðun

Sjá meira


×