Erlent

30 kílómetra olíuflekkur á Jótlandsströndum

Fuglar eru þegar farnir að finnast ataðir olíu.
Fuglar eru þegar farnir að finnast ataðir olíu. Úr myndasafni/Greenpeace

Olíuflekkurinn er ekki nema um tveggja metra breiður en þó eru í honum pollar sem eru um tíu metrar í þvermál. Hann kom upp í fjöru á vesturströnd Norður-Jótlands.

Fuglar eru þegar farnir að finnast, ataðir í olíu og hafa sveitir manna verið sendar til þess að aflífa þá.

Viggo Larsen sem starfar við umhverfismál segir í samtali við danska ríkisútvarpið að mengunin sé alvarleg.

Þótt flekkurinn sé ekki breiður sé hann þrjátíu kílómetra langur og hreinsun muni taka langan tíma.

Sýni hafa verið tekin af olíunni og send til rannsóknar. Viggo Larsen segir að menn hafi enga hugmynd um hvaðan hún kemur.

Hann hafi hinsvegar talað við jarðfræðinga sem telji mögulegt að hana megi reka til jarðskjálfta sem varð fyrir skömmu utan við Hanstholm.

Þá hafi hugsanlega komið rifa á hafsbotninn í Norðursjó og olía streymt upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×