Handbolti

Wilbek trúði ekki eigin augum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar

„Ég sá lokamínútur leiksins og ég átti alls ekki von á þessu,“ sagði Ulrik Wilbek, landsliðsþjálfari Danmerkur, eftir að hafa séð Austurríkismenn ná ótrúlegu jafntefli gegn Íslandi á EM í handbolta í gær.

„Nú hefur Ísland kastað frá sér sigrinum í tveimur leikjum í röð og þeir losna ekki við þetta úr kollinum á sér strax,“ sagði Wilbek við danska fjölmiðla en Danir unnu í gær Serba, 28-23, og eru með fullt hús stiga í riðlinum.

„En það er mikilvægt að vera áfram auðmjúkir og undirbúa okkur fyrir leikinn gegn Ísland eins vel og við getum.“

Hans Lindberg sagði úrslitin einnig hafa komið sér á óvart.

„Það var ótrúlegt að sjá Íslendinga kasta þessu frá sér annan leikinn í röð en það er varla hægt að skrifa svona lagað ítrekað á óheppni,“ sagði Lindberg.

Ísland mætir Danmörku í lokaumferð riðlakeppninnar annað kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×