Erlent

Brown vill búa áfram í Downing stræti

Óli Tynes skrifar
Gordon kemur heim.
Gordon kemur heim. Mynd/AP

Það fór eins og við var búist, enginn flokkur fékk hreinan meirihluta á breska þinginu. Bloggari á vefsíðu The Times orðaði þetta þannig: -Þjóðin hefur talað en það er ekki ljóst hvað hún sagði.

Lokatölur liggja ekki fyrir ennþá en það eru svo fá sæti eftir að skýrast að það er ljóst að Íhaldsflokkurinn nær ekki þeim 326 sætum sem hann þarf til að fá hreinan meirihluta.

Samkvæmt þeim tölum sem nú liggja fyrir er sigur hans þó ljós þar sem hann hefur bætt við sig að minnsta kosti 92 þingsætum og Verkamannaflokkurinn hefur tapað 87.

Stóri taparinn er þó kannski frjálslyndir demokratar. Skoðanakannanir bentu til þess að þeir myndu bæta vel við sig en þess í stað töpuðu þeir fimm þingsætum.

Samkvæmt þessu þætti kannski eðlilegt að Íhaldsflokkurinn fengi fyrstu tilraun til stjórnarmyndunar.

Bresk lög eru hinsvegar með þeim hætti að forsætisráðherra sitjandi ríkisstjórnar á alltaf fyrsta rétt.

Og Gordon Brown hefur ýjað að því að hann vilji tala við Frjálslynda demokrata um stjórnarmyndum.

Nick Clegg er hinsvegar beygður eftir ósigurinn og hefur sagt að honum finnist að James Cameron eigi rétt á að reyna fyrstur.

Líklega líst honum líka betur á að ganga í sæng með Cameron en Brown.

Íhaldsmenn hafa náttúrlega brugðist ókvæða við þessu brölti Browns og segja að hann hafi fengið slíka útreið að hann eigi að hunskast sem fyrst út úr Downingstræti 10.

Ekki er mikil hefð fyrir samsteypustjórnum í Bretlandi og nokkrir fréttaskýrendur telja að hver sem útkoman verði næstu daga verði boðað til nýrra kosninga eftir ár eða svo.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×