Erlent

Talibaninn og Gyðingarnir

Óli Tynes skrifar
James Jones öryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta.
James Jones öryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta.

Öryggisráðgjafi Baracks Obama Bandaríkjaforseta hefur beðið Gyðinga afsökunar á brandara sem hann sagði í ræðu sem hann flutti í Washington Instutute for Near East Policy.

Sú stofnun fer með málefni Miðausturlanda og þar eru menn fremur hlynntir Ísrael.

Í brandaranum sagði James Jones fyrrverandi hershöfðingi frá talibana sem staulaðist um eyðimörkina magnþrota af þreytu og vatnsskorti.

Út við sjóndeildarhringinn sá hann einhvern kofa sem hann stefndi á. Kofinn reyndist vera verslun og eigandinn var Gyðingur.

Talibaninn staulaðist inn og stundi upp; -Mig vantar vatn, gefðu mér vatn.

Gyðingurinn svaraði; -Því miður á ég ekkert vatn. En viltu kaupa hálsbindi? Ég er með ágætis útsölu á hálsbindum.

Talibaninn trylltist og jós skömmum yfir Gyðinginn. Kallaði hann öllum illum nöfnum.

Gyðingurinn hlustaði rólegur á þetta. Þegar talibaninn hafði ausið úr skálum reiði sinnar sagði hann; -Mér þykir leitt að eiga ekkert vatn handa þér. Og ég fyrirgef þér skammirnar um mig og þjóð mína.

-Þessvegna skal ég hjálpa þér. Ef þú gengur yfir hæðina þarna og heldur áfram fimm kílómetra þá kemur þú að veitingahúsi. Þeir eiga allt það vatn sem þú getur í þig látið.

Talibaninn staulast af stað og hverfur yfir hæðina. Mörgum klukkustundum síðar staulast hann til baka, nær dauða en lífi.

Og segir við Gyðinginn; -Bróðir þinn segir að ég komist ekki inn á veitingastaðinn nema vera með bindi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×