Erlent

Heimsstyrjöldinni lýkur á sunnudag

Óli Tynes skrifar
Um 10 milljónir hermanna féllu í fyrri heimsstyrjöldinni.
Um 10 milljónir hermanna féllu í fyrri heimsstyrjöldinni.

Það eru að vísu 92 ár síðan byssurnar þögnuðu en fyrri heimsstyrjöldinni er þó ekki formlega lokið. Það verður ekki fyrr en á sunnudag þegar Þjóðverjar borga síðustu afborgun af stríðsskaðabótum sem bandamenn gerðu þeim að greiða samkvæmt Versalasamningnum.

Upphæðin sem Þjóðverjar borga á sunnudag er tæpar 60 milljónir sterlingspunda eða tæpir 11 milljarðar króna. Þeir væru raunar löngu búnir að greiða stríðsskaðabætur sínar ef Adolf Hitler hefði ekki neitað að borga af þeim á valdatíma sínum.

Maynard Keynes sagði af sér

Mestur hluti stríðsskaðabótanna fór til Frakklands og Belgíu sem voru efnahagslega í rúst eftir styrjöldina sem kostaði um 10 milljónir hermanna lífið.

Frakkar gengu harðast eftir því að hafa skaðabæturnar sem mestar. Byrðarnar sem lagðar voru á Þjóðverja voru svo gríðarlegar að fulltrúi breska fjármálaráðuneytisins John Maynard Keyns sagði af sér í mótmælaskyni.

Uppskrift að nýrri styrjöld

„Þjóðverjar munu ekki geta mótað sér rétta stefnu ef þeir geta ekki fjármagnað sjálfa sig," sagði baróninn.

Það er nokkuð almenn skoðun að hatur Þjóðverja á Versalasamningnum og neyðin sem hann olli hafi átt stóran þátt í því að nazistar komust til valda í Þýskalandi. Með alkunnum afleiðingum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×