Skoðun

Mannauður er víða

Eftir hrun bankanna hefur mikið verið rætt um starfsemi Landspítalans og annarra stofnana ríkisins til að huga að sparnaði þeirra. Oftar en ekki er talað um að helsti styrkur þessara fyrirtækja sé mikill mannauður, þ.e.a.s. duglegt og vel menntað starfsfólk. Vissulega er mannauður þessara stofnana mikill; að mínu viti er hann jafnvel mun meiri en talað er um.

Ég heyrði talað um starfsemina á geðsviði Landspítalans um daginn og þá var sagt að það væri vel mannað og að útskriftarnemar margra heilbrigðisstétta myndu hefja störf bráðlega. Það er frábært að vita til þessa en þar sem ég sat þarna og hlustaði þá hugsaði ég með mér: „Hvað um alla sjúklingana, er ekki mikinn mannauð þar að finna?“ Jú segi ég, því ég vil meina að allar manneskjur búi yfir auði og eins og allir vita þá eru sjúklingar manneskjur. Þó svo að þeir séu ekki starfsmenn spítalans þá er þeirra styrkur mikilvægur í allri meðferð og bataferli.

Mikilvægt er að þeir sem starfa í heilbrigðisgeiranum líti ekki bara á sjúkdóm manneskjunnar, því sjúkdómurinn er yfirleitt ekki nema lítið brot af lífi hennar. Það er því eðlilegt að hugsa sér að það búi mikill mannauður og styrkur þar á meðal sem vert er að huga að og nýta til framdráttar.

Menntun er sannarlega mikilvæg, en það má ekki gleyma því að margir sjúklingar eru vel menntaðir. Svo eru aðrir sem vegna veikinda sinna, eða stöðu í lífinu, geta ekki stundað nám. Þá má ekki horfa fram hjá því að það þarf styrk til að takast á við erfið veikindi og það að ganga í gegnum þau er mikill lærdómur sem ekki fæst úr námsbókum.

Margir sjúklingar eða veikir einstaklingar hafa líka mikla hæfileika og standa oft öðrum framar á vissum sviðum og margir ná miklum bata, árangri og gengur vel. Þeir sem veikir eru gefa þeim sem annast eða vinna í þeirra meðferðarmálum mikilvægt hlutverk og nærvera þeirra skiptir miklu máli. Þetta á líka við um þá sem eru ekki veikir, nærvera þeirra skiptir okkur líka máli.

Þetta álit á þeim sem minna mega sín kemur vel fram í umræðunni um fjölgun þeirra er þurfa á mataraðstoð að halda. Það er mikið talað um sumarfrí hjálparstofnana og það gagnrýnt að fólk geti ekki leitað neitt annað eftir mataraðstoð á meðan. Ég er hjartanlega sammála því að það er slæmt að þessar tvær hjálparstofnanir sem hér um ræðir skuli ekki opna aftur fyrr en um miðjan ágúst.

En það er hins vegar engin nýlunda að hjálparstofnanir fari í frí á sumrin. Samt hefur ekki verið nein umræða um það fyrr en í ár. Þetta finnst mér svolítið skrýtið og ég velti því fyrir mér hvort það sé vegna þess að það sé kominn nýr hópur fólks sem þurfi aðstoð, þ.e.a.s. einstaklingar í svokallaðri millistétt en ekki bara öryrkjar eins og síðustu ár.

Aðuvitað eru miklu fleiri núna en öryrkjar sem eru fjárhagslega illa staddir í dag svo umræðan er eðlileg enda er ég ekki að segja að hún eigi ekki rétt á sér. En við megum ekki gleyma þeim sem hafa lent í sumarlokunum áður. Okkur á ekki að finnast það sjálfsagt mál að fólk eigi að taka sér sumarfrí frá erfiðleikum sínum. Fjölskyldur þeirra þurfa líka sumarfrí og því ekki rétt að það sé þagað um það eins og undanfarin ár. Með þögninni erum við að gefa í skyn að mannauður þessa fólks sé ekki mikill og að okkur sé í raun og veru alveg sama.

En okkur er ekkert sama er það?

Lífið hefur kennt okkur að ólíklegasta fólk getur lent í erfiðleikum og ólíklegasta fólk getur orðið öryrkjar og þurft á aðstoð að halda.

Ólíklegustu sjúklingar og heilbrigðir einstaklingar búa yfir miklum hæfileikum og við vitum aldrei hvert okkar mun þurfa á sameiginlegum sjóðum að halda.

En hvorki ég, þú né nokkur er verri eða betri manneskja en annar og það býr styrkur í okkur öllum. Ef Landspítalinn og aðrar stofnanir ríkisins ætla að ná að styrkja starfsemi sína og bæta þjónustuna þá verða þær að nýta mannauðinn sem þar er. Það er okkar allra að breyta umræðunni.

Látum ekki veikindi villa okkur sýn, það leynist mannauður víða.



Skoðun

Sjá meira


×