Handbolti

Ásgeir Örn: Treysti Gumma

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Mynd/Anton

Ásgeir Örn Hallgrímsson hefur ekki fengið að spila eins mikið og hann vonaðist til í fyrstu tveimur leikjum Íslands á EM í handbolta.

„Ég vil auðvitað spila alla leiki en það er þjálfarans að ákveða hvenær ég spila. Ég tek þau tækifæri sem ég fæ og það er undir mér komið að standa mig,“ sagði Ásgeir við Vísi.

„Við vorum þó að spila á fleiri leikmönnum á Ólympíuleikunum en við höfum gert hingað til á þessu móti. En leikirnir hafa kannski ekki spilast þannig að Gummi [Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari] vilji skipta. Ég treysti honum fyrir þessum ákvörðunum.“

Hann segir það hafa verið erfitt að horfa upp á liðið kasta frá sér sigrinum bæði gegn Serbíu og Austurríki en Ísland gerði jafntefli í báðum þessum leikjum.

„Við höfum verið að spila vel á köflum en svo skilur maður ekki hvað gerist á síðustu tíu mínútum leiksins. Það er eins og við förum aftur í fimmta flokk.“

„En ég hef ekki áhyggjur af andlegu ástandi manna og við erum ekki dottnir í eitthvað þunglyndi. Gummi hefur rætt mikið við okkur og farið yfir stöðuna og hvað við þurfum að gera. Við getum komið okkur í góða stöðu ef við vinnum Dani í kvöld.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×