Skoðun

Metum störf slökkviliðsmanna að verðleikum

Sólveig Magnúsdóttir skrifar
Í 17 ár hef ég verið gift slökkviliðsmanni sem er á bakvakt allt árið um kring, allan sólarhringinn, fyrir utan sínar föstu vaktir. Hvenær sem er á fjölskyldan von á því að makinn þurfi að hlaupa út frá afmæli, brúðkaupi eða hverju sem er vegna bruna eða annarra útkalla.

Marga unga drengi dreymir um að verða slökkviliðsmenn þegar þeir verða stórir. Af hverju? Jú, líklega af því að í amerískum bíómyndum eru þeir hetjur í flottum búningum og keyra um á flottum rauðum stórum bílum og bjarga fólki. Og það er litið á slökkviliðsmenn í Ameríku sem hetjur, það hef ég séð með eigin augum. En eru íslenskir slökkviliðsmenn ekki líka hetjur? Þeir eru alltaf tilbúnir til að leggja líf sitt í hættu fyrir fólkið í landinu.

Á síðustu mánuðum hefur mikil umræða verið um þau laun sem svokallaðir „útrásarvíkingar" höfðu og var skýringin sú að það væri af því að þeir bæru svo mikla ábyrgð. Þetta fyllir mig ólýsanlegri reiði þegar maður hugsar til þess að þessir aðilar væru líklega ekki tilbúnir að setja á sig reykköfunartæki fyrir þau laun sem slökkviliðsmenn hafa, hvað þá að vinna þau erfiðu verk sem geta beðið slökkviliðsmanna á hverri vakt.

Hver vill ekki geta treyst á að aðstoð berist hratt ef slys ber að höndum s.s. ef barnið þitt fær hitakrampa eða þú færð hjartaáfall þegar síst varir? Ég held að það sé tími til kominn að þau störf séu metin að verðleikum sem eru þess eðlis að fólk leggur sig í hættu við að sinna. Fólk er verðmætara en peningar og pappír.




Skoðun

Sjá meira


×