Lífið

Styttist í Jazzhátíð Reykjavíkur

Breski píanistinn Django Bates verður gestur á Jazzhátíð Reykjavíkur í ágúst.
Breski píanistinn Django Bates verður gestur á Jazzhátíð Reykjavíkur í ágúst.

Dagskrá Jazzhátíðar Reykjavíkur verður kynnt á Grand hóteli í dag klukkan 17. Þar verður boðið upp á tónlist með nokkrum af okkar helstu djassleikurum. Jazzhátíðin verður haldin í 21. skipti dagana 14.-29. ágúst og lýkur henni því á afmælisdegi einnar mestu goðsagnar djassins, saxófón­leikarans Charlie Parker, sem hefði orðið níræður þann dag.

Meðal erlendra gesta hátíðarinnar er breski píanistinn Django Bates, Hann er þekktur fyrir að vera ólíkindatól í tónlistinni og hefur stundum verið kallaður Monty Python djassins. Bates mun spila bæði einn og með tríói sínu á hátíðinni. Þýski básúnusnillingurinn Nils Wogram mætir einnig ásamt tríói sínu Nostalgia.

Margt fleira er á döfinni og má tína til ljósmyndasýningu í Uppsölum Reykjavíkurhótelsins Centrum. Einnig verða haldnir tónleikar sem verða sendir út beint á Netinu um miðjan dag og þess freistað að kynna þá viðburði fyrir tónleikahöldurum austan hafs og vestan. Auk þess heimsækja hátíðina á annan tug erlendra blaðamanna og tónleikahaldara.

Sala er hafin á djasspössum hátíðarinnar á Midi.is. Aðeins verða í boði 300 passar á alla hátíðina og kostar passinn 8.000 krónur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.