Erlent

Samkomulag tryggir aukin völd sjíaklerka

Úrslit þingkosninganna í vetur voru umdeild og hófst endurtalning atkvæða nú í vikunni.Nordicphotos/AFP
Úrslit þingkosninganna í vetur voru umdeild og hófst endurtalning atkvæða nú í vikunni.Nordicphotos/AFP

-AP- Tveir stærstu hópar sjíamúslima á þinginu í Írak hafa gert með sér samkomulag um að leggja allar pólitískar deilur sín á milli í hendur virtra sjíaklerka.

Annar hópurinn er fylking Nours al-Maliki forsætisráðherra, sem missti fylgi í kosningum í vetur, en hinn er bandalag íhaldssamari sjíamúslima sem inniheldur meðal annars hreyfingu herskáa klerksins Muktada al-Sadr, sem hefur lengi haft horn í síðu al-Maliki.

Takist þeim að mynda ríkisstjórn, eins og flest bendir til, þá þýðir þetta samkomulag að völd sjíaklerka aukast mjög. Jafnframt yrði það til þess að súnnímúslimum þætti enn meir að sér þrengt en hingað til.

Íransstjórn hefur töluverð ítök í báðum fylkingunum, en í Íran hafa klerkarnir veruleg völd samkvæmt stjórnarskrá.

Þótt súnnímúslimar séu í minnihluta í landinu hafa þeir lengi átt því að venjast að fara með öll völd í reynd, því Saddam Hussein kom úr þeirra röðum og gerði þeim hærra undir höfði en öðrum hópum.

Súnníar eru meira en þriðjungur landsmanna og sætta sig ekki við að vera áhrifalausir. Herskáir hópar súnnímúslima hafa árum saman barist gegn núverandi stjórn al-Maliki og stríðsrekstri Vesturlanda í landinu.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×