Erlent

Þingkosningar í skugga hryðjuverka

Þingkosningarnar í Írak fara fram í skugga hryðjuverkaárása, en að minnsta 30 hafa látið lífið og á sjötta tug manna særst í sprengjuárásum í Írak í morgun eftir að kjörstaðir opnuðu.

Hryðjuverkasamtökin al-Qaeda höfðu hótað hryðjuverkárásum í aðdraganda kosninganna í Írak. Uppreisnarsamtök súnníta sem kalla sig Írak - ríki múslima og innihalda meðlimi al-Qaeda, lýstu yfir útgöngubanni á kjördag og vöruðu alla þá sem hygðust fara út til að kjósa að þeir yrðu berskjaldaðir gagnvart reiði Allah og öllum vopnum uppreisnarhersins, að því er fram kemur í bandaríska dagblaðinu The Washington Post.

Forsætisráðherra Íraks, Nouri-al Maliki, hvatti kjósendur hins vegar til að nýta sér atkvæðisréttinn. Búist var við að kjörsókn yrði mikil þrátt fyrir hryðjuverkahættu og hótanir um að óbreyttir borgarar yrðu beittir ofbeldi.

Gríðarlega öryggisgæsla er í landinu vegna þingkosninganna. Meðal annars hefur bílaumferð verið bönnuð víða til þess að takmarka árásir með bílsprengjum eða annars konar tilræði.

Hótanir uppreisnarmanna voru ekki orðin tóm því tólf manns féllu í átökum í norðvesturhluta höfuðborgarinnar Bagdad í morgun þegar sprengja jafnaði byggingu við jörðu og aðrir sjö féllu í stórskotaárásum í vesturhluta borgarinnar. Aðrir misstu lífið annars staðar í landinu. Þá hafa verið gerðar um tuttugu árásir á græna svæðið svokallaða, en innan þess eru helstu stjórnstöðvar innrásarhersins og bandaríska sendiráðið.

Þetta er í annað sinn sem kosið er til þings í Írak frá innrásinni árið 2003 og eftir að Saddam Hussein var hrakinn frá völdum. Um 6200 frambjóðendur frá 86 stjórnmálaflokkum og berjast um 325 þingsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×