Innlent

Samþykktu frumvarp um fjármálafyrirtæki

Alþingi samþykkti í morgun frumvarp til laga um fjármálafyrirtæki. Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði að frumvarpið væri hænuskref í rétta átt. Ríkisstjórnin hefði enga framtíðarsýn fyrir fyrirtæki og banka. Forseti alþingis minnti hann þó á að tala um frumvarpið, ekki ríkisstjórnina.

Frumvarpið var samþykkt með breytingartillögu meirihlutans með 49 samhljóða atkvæðum og voru allar breytingartillögur minnihlutans felldar.

Magnús Orri Schram. Samfylkingu, sagði frumvarpið gott og mikilvægt skref í framtíðina og Eygló Harðardóttir, Framsóknarflokki, sagði hænuskrefin vera af hinu góða.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, komst svo að orði við atkvæðagreiðslu um frumvarpið að gjörbreyttur andi væri yfir umræðum þingsins í málinu og Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði eftir því tekið að umræðan hefði verið málefnaleg og góð.

Í frumvarpinu er meðal annars tekið á lánveitingum fjármálafyrirtækja. Þar er lagt bann við lánveitingum með veði í hlutabréfum lánveitandans, og sömuleiðis við áhættulánveitingum til eigenda, stjórnarmanna og lykilstarfsmanna nema gegn traustum tryggingum.

Í frumvarpinu er jafnframt tekið á ýmsum öðrum þáttum í rekstri fjármálafyrirtækja. Þar er nánar kveðið á um náin tengsl viðskiptamanna, hlutafé fyrirtækjanna, upplýsingagjöf, áhættu og innri endurskoðun fjármálafyrirtækja en var í gömlu lögunum. Þá er einnig fjallað um hæfi aðila til að fara með eignarhlut í fjármálastofnunum og heimild til að greiða út starfslokasamninga.

Breytingartillaga Margrétar Tryggvadóttur, þingmanns hreyfingarinnar, um að fjármálafyrirtækjum væri ekki veitt bæði starfsleyfi sem viðskiptabanki og fjárfestingabanki var felld, en samhugur var í þingmönnum um að skoða tillöguna nánar.

Þó samstaða hafi verið um að samþykkja frumvarpið kom þó fram gagnrýni af hálfu stjórnarandstöðunnar. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, gagnrýndi að ekki væri tekið á dreifðu eignarhaldi fjármálastofnana og Guðlaugur Þór sagði frumvarpið aðeins lítið skref í rétta átt. Nefnd verður skipuð um að móta stefnu um framtíðaruppbyggingu fjármálakerfisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×