Viðskipti innlent

Leitað að gögnum um lánveitingar til Skúla og Stanford

Fjörutíu manns frá lögreglunni í Lúxemborg hafa aðstoðað embætti sérstaks saksóknara við húsleit í Banque Haveland, sem var áður dótturfélag Kaupþings, og á fleiri stöðum í Lúx. Aðgerðirnar tengjast rannsókn á meintri tugmilljarða markaðsmisnotkun Kaupþings og lánveitingum bankans til félaga í eigu Skúla Þorvaldssonar og Kevin Stanford á Tortóla.

Aðgerðir sérstaks saksóknara í Lúxemborg hafa staðið yfir síðan á þriðjudagsmorgun og tóku fjörutíu lögreglumenn frá efnahagsbrotadeildinni í Lúx þátt - ásamt Ólafi Þór Haukssyni sjálfum og fjórum starfsmönnum embættis sérstaks saksóknara.

Farið var inn í Banque Havilland sem áður var dótturfélag Kaupþings. Bankastjóri er Magnús Guðmundsson, sem einnig stýrði bankanum fyrir hrun. Nokkrir núverandi og fyrrverandi starfsmenn bankans hafa verið yfirheyrðir og standa yfirheyrslur enn.

Aðgerðirnar tengjast rannsókn sérstaks saksóknara og bresku efnahagsbrotadeilarinnar á meintri tugmilljarða markaðsmisnotkun Kaupþings í aðdraganda bankahrunsins.

Farið var í þessar viðamiklu aðgerðir samkvæmt heimildum fréttastofu meðal annars til að afla frekari gagna um háar lánveitingar Kaupþings til félaganna Holly Beach, í eigu Skúla Þorvaldssonar og Trenvis Ltd í eigu Kevin Stanford. Það félag fékk lán hjá Kaupþingi til að kaupa skuldatryggingar á bankann á þeim tíma sem skuldatryggingarálagið var bankanum óhagstætt. Þar leikur grunur á umboðssvikum og markaðsmisnotkun.

Mun efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar hafa sérstakan áhuga á lánveitingum bankans til Kevin Stanford, sem er þekktur fjárfestir á Bretlandseyjum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×