Erlent

Íhaldsmenn áhyggjufullir

David Cameron, formaður Íhaldsflokksins.
David Cameron, formaður Íhaldsflokksins. MYND/AP

Enn virðist halla undan fæti hjá Íhaldsmönnum í Bretlandi. Kannanir undanfarna daga hafa gefið til kynna að líkur séu á stjórnarkreppu í Bretlandi eftir kosningarnar sem fram fara í vor. Nýjasta könnunin sem breska blaðið The Daily Telegraph lét framkvæma bendir til þess að Verkamannaflokkurinn fái flest þingsæti þótt ekki dugi það til þess að ná hreinum meirihluta.

Í könnuninni var aðeins horft til þeirra sem segjast algjörlega vissir um að fara á kjörstað og af þeim sögðust 37 prósent ætla að kjósa Íhaldsflokkinn, 32 prósent nefndu Verkamannaflokkinn og 19 prósent Frjálslynda demókrata. Þrátt fyrir að íhaldsmenn mælist með meira heildarfylgi er kjördæmaskiptingin á þann veg í Bretlandi að líkur eru á því að Verkamannaflokkurinn fái flesta þingmenn. Mjög mjótt er þó á munum og ef íhaldsmenn næðu að bæta við sig einu prósenti til viðbótar er talið líklegast að þeir fái þingmeirihluta og þarmeð stjórnarmyndunarumboð.

Fréttir af fautaskap Gordons Brown upp á síðkastið virðast ekki hafa haft þau áhrif sem búist var við en íhaldsmenn halda þó enn í vonina. Þá binda þeir miklar vonir við fyrirhugaðar sjónvarpskappræður formanna flokkanna en samkvæmt könnunum búast flestir við því að íhaldsleiðtoginn David Cameron eigi eftir að standa sig best í þeim.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×