Innlent

Íhuga styttri afgreiðslutíma sundlauga

Í tillögum ÍTR er gert ráð fyrir að stytta opnunartíma sumra sundlauga í Reykjavík.
Fréttablaðið/Valli
Í tillögum ÍTR er gert ráð fyrir að stytta opnunartíma sumra sundlauga í Reykjavík. Fréttablaðið/Valli

Til greina kemur að breyta afgreiðslutíma sundlauga Reykjavíkurborgar til að hagræða í rekstri, Hugmyndir þess efnis frá Íþrótta- og tómstundaráði (ÍTR) verða til umfjöllunar við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs.

Diljá Ámundadóttir, formaður ÍTR, segir við Fréttablaðið að ekkert hafi enn verið ákveðið. Niðurskurður sé þó nauðsynlegur, en tillögurnar ættu ekki að koma of illa við borgarbúa.

Sjö sundlaugar eru undir stjórn ÍTR og segir Diljá að það gefi tækifæri til hagræðingar. „Við gætum mögulega sparað mikla fjármuni með því að breyta afgreiðslutímanum lítillega því laugarnar þurfa ekki allar að vera opnar frá hálf sjö og fram á kvöld. Ein eða tvær yrðu með óbreyttan afgreiðslutíma, en það er möguleiki með að rótera hinum, þar sem sumar gætu lokað fyrr tvo eða þrjá daga í viku. Með þessu gætum við sparað allt að tíu milljónir króna.“

Diljá segir að engar uppsagnir séu fyrirhugaðar í þessum áætlunum, heldur yrði vaktafyrirkomulagi breytt. Hún vildi ekki tjá sig um mögulega skerðingu á starfshlutfalli starfsfólks, enda lægi engin ákvörðun fyrir um slíkt.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×