Erlent

Erdogan hafnar kosningum

Erdogan forsætisráðherra, Gül forseti og Basbug herforingi. Fréttablaðið/ap
Erdogan forsætisráðherra, Gül forseti og Basbug herforingi. Fréttablaðið/ap

 Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra Tyrklands, hafnaði kröfum stjórnarandstöðunnar um að efna til kosninga hið fyrsta. Hann átti í gær fund með Ilker Basbug herforingja, yfirmanni tyrkneska hersins. Abdullah Gül forseti sat einnig fundinn.

Veruleg spenna hefur verið í vikunni milli tveggja helstu valdaafla landsins, hersins og stjórnarinnar, eftir að fimmtíu fyrrverandi og núverandi yfirmenn í hernum voru handteknir og yfirheyrðir vegna gruns um að hafa ætlað að steypa stjórninni af stóli. Tuttugu þeirra hafa verið ákærðir.

Erdogan sagði fundinn, sem stóð í þrjár klukkustundir, hafa verið ánægjulegan. Engu síður mátti sjá á myndum að Basbug herforingja var órótt.

Herinn hefur lagt áherslu á að halda í veraldlega skipan landsins, en stjórnin hefur opinskátt fylgt þeirri stefnu að vilja gera íslam hátt undir höfði.

„Almenningur þarf að vera fullviss um að farið verði með þessi mál að lögum og allir þurfa að sýna ábyrgð til þess að valda ekki stofnunum samfélagsins skaða,“ segir í sameiginlegri yfirlýsingu leiðtoganna þriggja. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×