Erlent

Vill ekki sjá friðarverðlaun Nóbels

Óli Tynes skrifar
Mordechai Vanunu.
Mordechai Vanunu.

Ísraelski kjarnorkuuppljóstrarinn Mordechai Vanunu hefur beðið friðarverðlaunanefnd Nóbels í Noregi að taka sig út af lista yfir hugsanlega þiggjendur á þessu ári.

Vanunu sat í fangelsi í Ísrael fyrir að upplýsa breska fjölmiðla um kjarnorkuáætlun landsins árið 1986. Það er stefna ísraelsstjórnar að játa hvorki né neita því að hún ráði yfir kjarnorkuvopnum.

Í beiðni sinni til nóbelnefndarinnar sagði Vanunu að hann kærði sig ekki um að þiggja sömu verðlaun og Shimon Peres sem nú er forseti Ísraels.

Hann var hinsvegar utanríkisráðherra árið 1994 þegar hann deildi friðarverðlaunum Nóbels með Yasser Arafat og Yitzhak Rabin sem þá var forsætisráðherra Ísraels.

Verðlaunin fengu þeir fyrir Oslóarsamkomulagið svokallaða, sem lítið er nú eftir af.

Vanunu telur Shimon Peres vera föður hinnar leynilegu kjarnorkuáætlunar Ísraels.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×