Skoðun

Hvað á að verða um Álftnesinga?

Nú er ár liðið frá því að óskað var eftir að Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga færi í saumana á fjárreiðum Sveitarfélagsins Álftanes og frá áramótum hefur bæjarstjórnin starfað samkvæmt samningi við fjárhaldsstjórn sem sveitarfélaginu var skipuð af ráðherra. Samningurinn rennur út nú í lok október, svo það er ekki furða að spurningin brenni á vörum.

Litlar sem engar upplýsingar hafa verið gefnar um gang mála. Af fundargerð bæjarstjórnar, þann 29. júní, má sjá að bæjarstjórn valdi fulltrúa í nefnd sem á að reyna að gera samning við bæjarstjórn Garðabæjar og í framhaldi af því að móta tillögu um sameiningu bæjarfélagana. Af óskýrðum ástæðum ákvað meirihluti bæjarstjórnar að hafna boði Reykvíkinga um viðræður um sameiningamál.

Þann 28. september var gerð fyrirspurn á bæjarstjórnarfundi og óskað upplýsinga um hvernig liði undirbúningi að tillögu um sameiningu. Lítið varð um svör, en forseti bæjarstjórnar sagði að vinnan gengi vel og taldi miklar líkur á að tillaga um sameiningu lægi fyrir innan skamms. Þar gætir ósamræmis við álit Garðbæinga, því bæjarstjóri þeirra hafði lýst því yfir í viðtali við RÚV í vikunni áður, 21. september, að hann teldi ekki líklegt að Garðbæingar myndu samþykkja tillögu um sameiningu sveitarfélaganna. Hann sagði litla ástæðu til að efna til kosninga um slíka tillögu nema ríkið kæmi fyrst að málum og létti á skuldbindingum sveitarsjóðs Álftanesinga. Lái þeim hver sem vill, því hvaða hag ættu Garðbæingar að sjá sér í að taka við skuldum Álftnesinga, vitandi að reglulegar tekjur bæjarfélagsins duga ekki fyrir útgjöldum. Þannig hefur það verið í langan tíma og verður áfram nema rekstrarforsendum verði breytt.

Eina fyrirliggjandi áætlunin um aðgerðir til að skapa sjálfstæðan rekstrargrundvöll fyrir byggðarlagið gerir ráð fyrir uppbyggingu þjónustukjarna á Álftanesi og að búa í haginn fyrir atvinnu í kringum ferðaþjónustu og fræðslustarfsemi. Hugmyndin er að nýta sérstöðu Álftaness sem felst í spennandi náttúru, miklum tengslum við sögu þjóðarinnar og síðan en ekki síst mannauði og öflugum hópi listamanna í byggðarlaginu. En, svo má spyrja af hverju Garðbæingar ættu að sjá hag af því að styrkja slíka uppbyggingu út á Álftanesi, nú þegar þeir eru að basla við að leysa áform um endurnýjun miðsvæðis byggðarinnar heima fyrir. Kannski er það hvorki hagur Garðbæinga né Álftnesinga að þessi sveitarfélög sameinist. Það er nokkuð augljóst af framansögðu að í nafni hagræðingar munu Álftnesingar frekar missa þá nærþjónustu sem fyrir er á nesinu heldur en að það sé líklegt að hún eflist með sameiningu við Garðabæ. Þó ekki sé langt að fara Álftanesveginn, þá verður það leiðigjarnt að skreppa sí og æ eftir einhverju smáræði, og auk þess kostar það sitt. Í því sambandi er við hæfi að minnast þess að það var fyrir þrýsting frá sveitarstjórn Garðabæjar að dregið var úr ferðum strætisvagna út á nesið, en kostnaður af þeim akstri var að stórum hluta greiddur úr sveitarsjóði Garðbæinga vegna þess að vagninn ekur mestan hluta leiðarinnar innan þeirra sveitarmarka.

Fjallað er nánar um þessi mál, staðreyndir og rökstuddar vangaveltur, í skrifum fyrrverandi formanns skipulags- og bygginganefndar á Álftanesi, á http://alftaneshreyfingin.blog.is.



Skoðun

Sjá meira


×