Innlent

Fjölmenningarþing í Reykjavík: Nítján frambjóðendur

Frá fjölmenningargöngu barna í Austurbæjarskóla
Frá fjölmenningargöngu barna í Austurbæjarskóla
Fyrsta fjölmenningarþing Reykjavíkurborgar verður haldið í Borgarleikhúsinu komandi laugardag.

Á þinginu fer fram kosning í fjölmenningarráð en því er ætlað er að vera ráðgefandi fyrir mannréttindaráð Reykjavíkurborgar og stofnanir borgarinnar í málefnum innflytjenda. Í ráðið verða kosnir fimm aðalfulltrúar og tveir varamenn og hafa 19 einstaklingar af 15 þjóðernum ákveðið að gefa kost á sér. Allir innflytjendur af erlendum uppruna sem orðnir eru 18 ára og eiga lögheimili í Reykjavík mega kjósa.

Á fjölmenningarþinginu fá innflytjendur tækifæri til að koma skoðunum sínum um þjónustu borgarinnar á framfæri en markmið þess er að bæta þjónustu Reykjavíkurborgar við innflytjendur. Með fjölmenningarþinginu vonast borgin til að geta mætt þörfum nýrra íbúa borgarinnar betur með því að hlusta á þær raddir sem þar koma fram.

Jón Gnarr borgarstjóri mun setja þingið en hringborðsumræður fara fram á íslensku, ensku, spænsku, litháísku, pólsku, rússnesku, víetnömsku og tælensku.

Þingið er opið öllum innflytjendum, 18 ára og eldri, sem eiga lögheimili í Reykjavík og stendur það frá klukkan 10 til 14 á laugardag.

Frambjóðendur til fjölmenningarráðs Reykjavíkurborgar eru: Akeem-Cujo Oppong (Ghana), Alexander Witek Bogdanski (Pólland), Angelique Kelley (Bandaríkjunum), Ania Katarzyna Wozniczka (Pólland), Anna Filinska (Pólland), Fitore Berisha (Kosovo), Flóra Vuong Nu Dong (Víetnam), Irma Matchavariani (Georgía), Joanna Ewa Dominiczak (Pólland), Juan Camilo Román Estrada (Kólumbía), Katelin Marit Parsons (Kanada), Kinga Monika Jankowska (Pólland), Nedelina Stoyanova Ivanova (Búlgaría), Raúl Sáenz (Mexíkó), Rossie Sepulaveda Maillard (Chile), Salmann Tamimi (Palestína), Shuhui Wang (Kína), Toshiki Toma (Japan), Vaida Karinauskaite (Litháen).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×