Innlent

Júlíus Vífill: Samráð algjör nauðsyn

Júlíus Vífill Ingvarsson.
Júlíus Vífill Ingvarsson.

Júlíus Vífill Ingvarsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir ljóst að ekkert samráð eigi að hafa um samstarf skóla borgarinnar við trúar og lífskoðunarfélög. Tillögu sjálfstæðismanna um að koma á sérstökum starfshópi í málinu var hafnað af meirihluta mannréttindaráðs fyrr í dag.

„Við lögðum til að það yrði farið út í samráð sem er auðvitað algjörlega nauðsynlegt og grunnur að því að hægt sé að vinna tillögu sem sátt getur orðið um," segir Júlíus í samtali við Vísi og þar segist hann eiga við samráð með foreldrum, skólastjórnendum, nemendum, fræðimönnum, kirkjunni og öðrum trúfélögum og lífsskoðunarhópum.

Júlíus segir að tillaga sjálfstæðismanna hafi verið með svipuðum hætti og gert var þegar hann var formaður menntaráðs en þá var unnin skýrsla um samstarf skóla við kirkjuna og aðra lífsskoðunarhópa. „Út úr því komu mjög góðar og skynsamlegar tillögur en það var auðvitað aldrei ætlun okkar að fara að miðstýra því með boðvaldi hvernig þessum málum á að vera háttað úti í skólunum," segir Júlíus og bendir á að í skólum borgarinnar séu 20 þúsund börn. „Við eigum ekki að segja skólum hvernig þeir eiga að haga sér í þessum málum því skólarnir eru svo ólíkir. Það verður að leggja mat á það á hverjum stað hvernig að þessu er staðið."

Júlíus segir augljóst að meirihlutanum hafi brugðið við þau miklu viðbrögð sem tillagan um að banna aðkomu trúfélaga að skólum fékk upphaflega. „Og það er ekki til marks um góð vinnubrögð að rusla saman nýrri tillögu á aukafundi og senda hana síðan til umfjöllunar í öðrum pólitískum ráðum borgarinnar," segir hann og bætir við að niðurstaða þeirrar málsmeðferðar sé gefin fyrirfram. „Þetta er ekkert samráð, þetta er bara eins og hver önnur töfrabrögð og það er komið fram við skólastjórnendur, foreldra, nemendur og trúfélög af talsverðri lítilsvirðingu."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×