Innlent

Byrjað að ryðja Holtavörðuheiðina og Víkurskarðið

Vegagerðarmenn eru byrjaðir að ryðja Holtavörðuheiðina og Víkurskarð á milli Akureyrar og Húsavíkur, en ófært varð á þessum slóðum undir kvöld í gær og ekki var hægt að hefja mokstur vegna veðurs.

Síðdegis í gær varð þriggja bíla árekstur á Hrútafjarðarhálsi, en engan sakaði. Þá fóru björgunarsveitarmenn upp í Víkurskarð í gærkvöldi og fundu þar tvo yfirgefna bíla, en fólkið úr þeim hafði fengið far með öðrum bílum.

Víða þarf að ryðja vegi en biðið er með mokstur á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum vegna óveðurs og Hranfseyrar- og Dynjandisheiðar og Klettsháls eru ófær á Vestfjörðum. Það er þungfært á Siglufjarðarvegi og sömuleiðis á Öxi og Breiðdalsheiði á Austfjörðum.

Mikil hálka er víða um land , en vegir eru víðast auðir á Suður- og Suðausturlandi. Veðrustofan spáir áfarmhaldandi hvassviðri og ofankomu norðvestantil á landinu í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×