Viðskipti innlent

Fjárfestingastofa: Töluvert um fyrirspurnir frá Kína

Þórður Hilmarsson forstöðumaður Fjárfestingastofu Íslands segir að töluvert hafi verið um fyrirspurnir frá kínverskum aðilum um fjárfestingarmöguleika á Íslandi. „Enn sem komið er snúast þessar fyrirspurnir að mestu um möguleika á fjárfestingum í orkufrekum eða orkuháðum iðnaði," segir Þórður.

Eins og kunnugt er af frétt hér á síðunni í morgun skrifar einn af dálkahöfundum fréttatímaritsins Newsweek um áhuga Kínverja á Íslandi í tengslum við fyrirsjáanlega opnun siglingaleiða um Norðurskautssvæðið. Hugmyndir Kínverja gangi út á að koma upp umskipunarhöfn á Íslandi fyrir markaði í Evrópu og Norður Ameríku.

Þórður segir að enn sem komið er hafi engin formleg fyrirspurn borist um fjárfestingar í hafnaraðstöðu á Íslandi frá Kínverjum. „Enda er kannski of snemmt að vera að spá í slíkt þar sem töluverður tími er í að Norðurskautsleiðin verði opin allt árið," segir Þórður. Fjárfestingastofa veit þó vel af þeirri umræðu sem er í gangi og fylgist með þróun mála.

„Við vitum af því að Kínverjar hafa áhuga á að byggja flota risavaxinna flutningaskipa til að sigla á þessari leið í framtíðinni," segir Þórður. „Við erum að tala um sérstyrkt skip sem tækju 15.000 gámaeiningar hvert."

Fram kemur í máli Þórðar að Ísland sé ekki eina landið sem er hugsanlegt sem umskipunarstöð fyrir flutningaskip á Norðurleiðinni. Hann nefnir Rotterdam sem dæmi og Noreg einnig. Í Rotterdam sé nú þegar til staðar aðstaða til að þjónusta fyrrgreind risaskip. „Það yrðu mörg lönd sem hefðu áhuga á þessum viðskiptum," segir Þórður.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×