Skoðun

Háskóli Íslands í neyð

Jens Fjalar Skaptason skrifar

Það hefur vart farið framhjá mörgum að menntakerfið í landinu stendur frammi fyrir gríðarlega miklum niðurskurði á næstu misserum. Fjárhæð sú sem Háskóla Íslands er gert að skera niður um er uggvænleg og má með nokkurri vissu segja að eftir standi menntastofnun á brauðfótum.

Háskólaráð Háskóla Íslands sendi á dögunum frá sér yfirlýsingu þar sem nefndar voru þær aðgerðir sem háskólayfirvöld telja sig knúin til að framkvæma vegna þröngrar fjárhagsstöðu. Efst á blaði eru fyrirhugaðar aðgangstakmarkanir og hækkun á skrásetningargjöldum.

Þau úrræði sem fram koma í yfirlýsingu Háskólaráðs verður að líta á sem sérstök neyðarúrræði til þess að bregðast við gríðarlega hárri niðurskurðarkröfu stjórnvalda. Óljóst er með hvaða hætti aðgengi einstaklinga til ástundunar náms við Háskóla Íslands yrði takmarkað. Það er þó enn fremur ljóst að sama hver útfærslan yrði í þeim efnum gengi hún þvert á stefnu stjórnvalda um opinn og aðgengilegan ríkisháskóla.

Það er jafnframt mat Stúdentaráðs að hækkun skrásetningargjalda muni einungis leiða til háskólamenntunar hliðhollari hinum efnameiri. Skertum fjárframlögum ríkisins til Háskóla Íslands yrði þannig mætt með því að seilast dýpra ofan í vasa stúdenta. Stúdentaráð fagnar því að heimild til hækkunar skrásetningargjalda hafi ekki enn verið veitt af hálfu stjórnvalda og leggst eindregið gegn því að slíkar hugmyndir hljóti brautargengi þrátt fyrir ítrekun Háskólaráðs þar að lútandi.

Róður stúdenta og yfirvalda Háskóla Íslands gegn niðurskurðinum hefur verið þungur. Með hliðsjón af yfirlýsingu Háskólaráðs er augljóst að niðurskurðarkrafa stjórnvalda er einfaldlega alltof há og gengur nærri grunnstoðum Háskóla Íslands. Í núverandi árferði kann niðurskurður að vera óhjákvæmilegur upp að vissu marki en stjórnvöld verða að horfast í augu við afleiðingarnar ef fram skal ganga án nokkurrar íhlutunar þeirra.

Stúdentaráð hefur meðal annars bent á aðra hagræðingarmöguleika innan menntakerfisins sem dregið gæti verulega úr niðurskurði í fjárframlögum til Háskóla Íslands. Vísast í þeim efnum til skýrslu sem Stúdentaráð gaf frá sér fyrr í haust og má nálgast á vefsíðunni verjummenntun.is.

Stúdentaráð Háskóla Íslands skorar nú á stjórnvöld að skarast í leikinn og tryggja áframhaldandi stöðu Háskóla Íslands sem burðug menntastofnun í íslensku samfélagi.






Skoðun

Sjá meira


×