Viðskipti innlent

Íslandsbanki tekur upp persónuleikapróf

Íslandsbanki og Capacent hafa undirritað samkomulag um að Íslandsbanki verði sjálfstæður notkunaraðili á OPQ32 (Occupational Personality Questionnaire 32), sem er persónuleikapróf sniðið að ráðningum og þróun stjórnenda og sérfræðinga.

Í tilkynningu segir að prófið sé hannað af breska fyrirtækinu SHL, sem er leiðandi fyrirtæki á þessu sviði í heiminum. Capacent hefur um árabil boðið upp á notkun OPQ og annarra prófa frá SHL en slík próf gera fyrirtækjum m.a. kleift að meta hvort umsækjandi hafi þá eiginleika sem þarf til að ná árangri í tilteknu starfi. Markviss beiting slíkra prófa eykur forspárgildi ráðninga til muna.

Með samningnum verður Íslandsbanki fyrsta fyrirtækið á Íslandi sem tekur upp sjálfstæða notkun á OPQ32-prófinu. Capacent og Íslandsbanki hafa unnið sameiginlega að þessum áfanga á síðustu mánuðum. Meðal annars hefur verið unnið að því að tengja saman hæfni- og gildalíkan Íslandsbanka við hæfnilíkan SHL. Með slíkri tengingu verður ráðningarferlið markvissara og gegnsærra.

OPQ er útbreiddasta persónuleikaprófið í heiminum og kom fyrst á markað árið 1984. Í fyrra tóku ríflega 4 milljón manns um allan heim þetta próf. Í nýlegri prófarýni Breska sálfræðingafélagsins fær OPQ prófið bestu einkunn og er álitið með allra bestu persónuleikaprófum í heimi.

„Ég er mjög ánægður með að við skulum hafa tekið þetta próf í notkun við ráðningar. Íslandsbanki leggur mikla áherslu á að ráðningarferlið sé eins og best verður á kosið og tryggi að við fáum hæfasta fólkið þegar ráðið er til bankans," segir Hafsteinn Bragason, mannauðsstjóri Íslandsbanka í tilkynningunni

„Notkun prófsins eykur jafnræði meðal umsækjenda þar sem lagt er hlutlaust mat á hæfni þeirra. Samstarfið við Capacent hefur gengið mjög vel og við bindum miklar vonir við að prófið muni bæta ráðningarferlið enn frekar í framtíðinni."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×