Viðskipti innlent

Hugleiða að byggja hér lyfjaverksmiðju

Bandaríska samheitalyfjafyrirtækið Alvogen leitar að stað fyrir nýja verksmiðju sem fyrirhugað er að reisa. Að sögn Róberts Wessman, starfandi stjórnarformanns Alvogen, stendur valið helst á milli Austur-Evrópu og Íslands.

Tilkynnt var um kaup fjárfestingarsjóðs undir forystu Róberts Wessman á 30 prósenta hlut í Alvogen í júlílok í fyrra og jafnframt um þá stefnu að efla starfsemi fyrirtækisins enn frekar. Róbert segir reksturinn ganga vel og að félagið sé óðum að færa út kvíarnar, en auk starfsemi í Bandaríkjunum hafi verið opnaðar starfsstöðvar í Kína, Indlandi, Búlgaríu, Rúmeníu og Serbíu. Róbert segir félagið stefna í fremstu röð samheitalyfjafyrirtækja en vöxturinn verði þó yfirvegaður og varast verði mikla skuldsetningu. Hann segir innviði félagsins sterka og á því verði byggt.

„Við stefnum á að hefja starfsemi í tíu löndum til viðbótar á þessu ári, auk þess sem við erum að skoða að bæta við verksmiðju hér á landi," segir Róbert, en hann kynnti annað verkefni til sögunnar í gær, heilbrigðisþjónustu sem starfrækt verður að Ásbrú í Reykjanesbæ.

„Verksmiðjan gæti mögulega orðið á Íslandi eða í Austur-Evrópu. Þeir staðir koma helst til greina," segir hann og bætir við að ef Ísland yrði fyrir valinu þá væru sterkar líkur á því að verksmiðjunni yrði fundinn staður á Suðurnesjum. „Við höfum átt í mjög góðu samstarfi við Reykjanesbæ," segir hann og kveðst einnig vilja leggja lóð sitt á vogarskálarnar við frekari atvinnuuppbyggingu þar, enda sé atvinnuleysi í einstökum landshlutum einna mest þar.

Samheitalyfjafyrirtækið Alvogen er með yfir 100 ára rekstrarsögu, en félagið sérhæfir sig í þróun og framleiðslu samheitalyfja sem eru flókin í þróun og framleiðslu. Róbert Wessman var áður forstjóri samheitalyfjafyrirtækisins Actavis, en lét þar af störfum í ágústbyrjun 2008. - óká








Fleiri fréttir

Sjá meira


×