Erlent

Segir málstað Serba heilagan

Radovan Karadzic Segir sök blóð-baðsins liggja hjá múslimum í Bosníu-Hersegóvínu en ekki Serbum.nordicphotos/AFP
Radovan Karadzic Segir sök blóð-baðsins liggja hjá múslimum í Bosníu-Hersegóvínu en ekki Serbum.nordicphotos/AFP

„Málstaður okkar er réttlátur og heilagur,“ sagði Radovan Karadzic, fyrrverandi leiðtogi Bosníu-Serba, í gær frammi fyrir Alþjóðasakadómstólnum í Haag, þar sem hann sætir ákærum fyrir þjóðarmorð og stríðsglæpi vegna forystuhlutverks síns í Bosníustríðinu 1992-95, sem kostaði um 100 þúsund manns lífið.

Alvarlegustu glæpirnir tengjast fjöldamorðum á átta þúsund karlmönnum við bæinn Srebrenica í júlí 1995. Karadzic segir Bosníu-Serba hafa verið í vörn gegn Bosníu-múslimum. Aldrei hafi verið ætlunin að fremja þjóðernishreinsanir eða aðra stríðsglæpi.

„Serbar voru að verja sitt eigið landsvæði, og það er ekki glæpur,“ sagði Karadzic í upphafi málsvarnar sinnar. „Það var aldrei ætlunin, ekki einu sinni hugmynd og hvað þá skipulögð áætlun að reka múslima og Króata úr landi.“

Hann sagði Serba hafa verið fyrstu fórnarlömb ofbeldis af hálfu múslima.

„Það var framferði þeirra sem leiddi af sér framferði okkar,“ sagði hann. Karadzic sér sjálfur um málsvörn sína. Hann reiknar með að þurfa tvo daga til að lesa upp almenna yfirlýsingu áður en vitni verða kölluð til. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×