Handbolti

Sjónvarpsáhorf: Þýskaland 10 prósent, Austurríki 14, Ísland 99

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Öll þjóðin fylgist með landsliðinu á EM í Austurríki.
Öll þjóðin fylgist með landsliðinu á EM í Austurríki. Mynd/DIENER
Þýski handboltavefurinn handball-world.com gerir áhorfstölur á leiki Íslands í Sjónvarpinu að umfjöllunarefni sínu í dag.

Þar segir að Þjóðverjar séu ánægðir með að sex milljónir manns horfðu á leik Þýskalands og Spánar á þriðjudaginn. Þýskaland tapaði þó leiknum og kemst ekki áfram í undanúrslit.

Áhorf í Austurríki hefur einnig farið fram úr björtustu vonum en rúmlega 300 þúsund manns horfðu á leik Austurríkis og Króatíu í sjónvarpi á þriðjudaginn. Tæpar átta milljónir búa í Austurríki en fjórtán prósent þeirra sem voru að horfa á sjónvarp voru að fylgjast með leiknum.

En þessi lönd eiga ekki roð í handboltaáhugann á Íslandi. Þar vitnar vefurinn í umfjöllun á heimasíðu EHF þar sem fram kemur að 82 prósent áhorf hafi verið á leik Íslands gegn Danmörku á laugardaginn og að 99 prósent þeirra sem hafi verið að horfa á sjónvarp klukkan þrjú á mánudaginn hafi verið að fylgjast með leik Íslands og Króatíu. Sá leikur mældist með 67 prósenta áhorf.

„Svona tölur sáust ekki einu sinni þegar að úrslitaleikur heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu fór fram hér í Þýskalandi," sagði í frétt vefsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×