Skoðun

Nú þurfum við á þér að halda

Íris Lind Sæmundsdóttir skrifar
Björgunarsveitir á Íslandi, sem allar starfa innan vébanda Slysavarnafélagsins Landsbjargar, eru mannaðar sjálfboðaliðum sem standa vaktina allan sólarhringinn árið um kring. Eitt helsta hlutverk sveitanna er vera til staðar fyrir almenning þegar þörf er á. Þannig starfa þær í þágu almannaheilla og taka þátt í björgun, leit og gæslu. Mikilvægi þeirra í íslensku samfélagi verður vart dregið í efa en það hefur sýnt sig í gegnum árin að þær eru nauðsynlegur hlekkur í almannavarnakerfi landsins. Það sást til dæmis glöggt við björgunar- og hreinsunarstörf í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli þegar björgunarsveitarfólk hvaðanæva að af landinu lagði sitt af mörkum vegna ýmissa verkefna sem þá féllu til.

Sveitirnar hafa einnig sannað sig á erlendum vettvangi, eins og þegar rústabjörgunarsveitin sem hefur hlotið sérstaka vottun Sameinuðu þjóðanna hélt utan til að sinna björgunarstörfum á Haítí fyrr á þessu ári.

Mikilvægt er að hafa í huga að rekstur björgunarsveitanna er afar kostnaðarsamur en starfi þeirra verður ekki sinnt án vel þjálfaðs mannafla og góðs tækjabúnaðar. Björgunarsveitarfólk gengst undir mikla og stranga grunnþjálfun, auk þess sem gerð er krafa um símenntun og sérfræðimenntun á ýmsum sértækum björgunarsviðum eftir að grunnþjálfun er lokið. Einnig eru ákveðnar kröfur gerðar til þess um andlegan styrk, líkamlegt atgervi og tímafórn vegna þjálfunar og æfinga á vegum sveitanna. Sveitirnar þurfa einnig að vera búnar sérstökum tækjakosti sem hentar í hvers kyns björgunarstörf. Búnaðurinn þarf alltaf að vera tiltækur, yfirfarinn og í góðu lagi.

Til að standa straum af rekstri björgunarsveitanna standa þær fyrir ýmiss konar fjáröflunarstarfi. Dagana 4.-7. nóvember munu þær standa fyrir árlegri sölu á Neyðarkallinum. Í ár er hann í líki rústabjörgunarmanns til heiðurs þeim sem stóðu vaktina vegna verkefnisins á Haítí.

Rústabjörgunarsveitin skildi eftir mikið af búnaði sínum ytra svo hægt væri að nota hann í áframhaldandi hjálparstarfi. Ágóði af sölu Neyðarkallsins í ár mun meðal annars ganga upp í kaup á nýjum búnaði fyrir sveitina.

Við björgunarfólk munum bjóða Neyðarkallinn til sölu á vinnustöðum og við verslanir um land allt næstu daga og vonum að þú takir vel á móti okkur. Við stöndum vaktina árið um kring fyrir þig og þína en þurfum núna á stuðningi þínum að halda. Því hvet ég þig til að kaupa Neyðarkallinn í ár.




Skoðun

Sjá meira


×