Handbolti

Leikmenn bera mikla virðingu fyrir Degi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Linz skrifar
Patrick Fölser.
Patrick Fölser.

Patrick Fölser, einn lykilmanna austurríska landsliðsins í handbolta, segir að Dagur Sigurðsson hafi verið mikill happafengur fyrir liðið.

Dagur er landsliðsþjálfari Austurríkis sem á morgun keppir í sínum fyrsta leik á stórmóti í handbolta í langan tíma. Tilhlökkunin er því mikil.

„Það er auðvitað afar sérstakt að við skulum nú loksins spila á okkar fyrsta stórmóti en við þurfum þó fyrst og fremst að einbeita okkur að leiknum,“ sagði Fölser í samtali við Vísi á blaðamannafundi austurríska landsliðsins í Linz í dag. Austurríki mætir Evrópumeisturum Dana á morgun.

„Okkar möguleikar felast í raun í því að nýta okkur þau tækifæri sem okkur bjóðast í leiknum. Ef þeir eiga slæman dag verðum við að nýta okkur það,“ bætti hann við.

Fölser segir að þó svo að Dagur sé ungur að árum beri leikmenn ótakmarkaða virðingu fyrir honum. „Hann er tildæmis aðeins fimm árum eldri en ég en það er enginn vafi á því að Dagur er okkar leiðtogi í hópnum. Okkur líður mjög vel undir hans stjórn og hann er duglegur að gefa sér tíma til að ræða við leikmenn í einrúmi. Það var mikill fengur fyrir okkur að hafa fengið hann.“

Hann taldi þó að það væri ekki mjög mikið að græða á því að vera með íslenskan þjálfara fyrir leikinn gegn Íslandi á fimmtudaginn.

„Dagur þekkir auðvitað íslenska liðið út og inn en í dag eru þjálfarar afar duglegir að fylgjast með andstæðingum þínum. Það hefur því kannski ekki svo mikið að segja. En hann þekkir ef til vill til einhverra smáatriða sem hann getur svo miðlað til okkar.

Fölser er línumaður og leikur ásamt Sturlu Ásgeirssyni í Düsseldorf í þýsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×