Skoðun

Hugleiðingar um stöðu OR

Kristinn Gíslason skrifar

Ég hef verið að hugleiða ýmislegt eftir að fréttist um yfirvofandi fjöldauppsagnir hjá fyrirtækinu.

Þá kemur í ljós að einhverjir hafa ekki verið að segja satt um stöðu fyrirtækisins, spurning hvort það eru fyrrverandi stjórnarmenn eða núverandi stjórnarmenn.

Allt í einu er staðan orðin þannig að grípa þarf til uppsagna til að leiðrétta stöðuna, en fyrir nokkrum mánuðum var staðan slík að fjármálastjórinn gat látið kaupa fyrir sig bíl upp á um sjö milljónir. Aftur á móti hafði verið tekin sú ákvörðun að ekki yrði sett fjármagn í endurnýjun á vinnubílum fyrirtækisins. Einnig gat fyrirtækið styrkt ýmis félagasamtök eins og t.d. Skákakademíuna um talsverða peninga. Þetta lýsir ekki stöðu fyrirtækis sem er í virkilegum skuldavanda.

Einnig vekur það athygli mína eftir að vera búinn að skoða fundargerðir stjórnar frá því fljótlega eftir hrun að hvergi kemur fram í bókunum að hækka þurfi gjaldskrá fyrirtækisins. Einnig vekur það furðu að hvergi er bókað að stjórnarmenn hafi mótmælt arðgreiðslum til eigenda.

Ég veit ekki betur en fyrrverandi borgarstjóri hafi boðað það fyrir síðustu kosningar að ekki væri þörf á gjaldskrárhækkun (þótt þorri starfsmanna hafi vitað að hækka þyrfti gjaldskrá), en eftir að nýr borgarstjóri tekur við og ný stjórn kemur að fyrirtækinu er þörf fyrir hækkun upp á 28% og grípa þarf til mikils niðurskurðar og uppsagna á starfsfólki.

Spurningin er hvað veldur slíkum viðsnúningi á þessum skamma tíma. Mér finnst þetta lýsa því að einhverjir séu að segja ósatt og vil ég velta ábyrgðinni á stjórnarmenn.

Annað mál: var ekki fyrirtækinu rænt innanfrá af eigendum svipað og bönkunum? Þegar hlutur OR í Landsvirkjun var seldur (allt of ódýrt) fyrir 30 milljarða þá fóru þeir aurar beint í borgarkassann.

Við sameiningu fyrirtækja OR (hitaveitu, vatnsveitu og rafmagnsveitu) á sínum tíma komu misfróðir hagfræðingar og sögðu eiginfjárstöðu fyrirtækisins allt of mikla og gefið var út skuldabréf upp á 10 milljarða sem runnu beint í borgarsjóð.

Síðan var borgin í vandræðum með fráveituna og hvað var gert? Jú, OR var látin kaupa hana fyrir um 22 milljarða.

Þá kem ég að öðru máli: Þessum 13 milljörðum sem borgin hefur tekið til hliðar vegna hugsanlegra vandræða við fjármögnun OR ætti borgin í raun og veru að skila fyrirtækinu þar sem hún tók á sínum tíma út þetta fjármagn sem ég skýrði hér á undan.

Núna við endurskipulagningu fyrirtækisins er verið að notast við þá menn sem voru í æðstu stöðum fyrirtækisins og tóku þátt í stjórn þess (hluti þessara manna fékk sérstaka kaupréttarsamninga þegar REI var stofnað og ætluðu að græða milljónir). Starfsmönnum finnst eitthvað bogið við þetta. Það er ekki verið að nýta sér krafta þeirra manna sem koma beint að rekstri og fá hjólin til að snúast. Að vísu er búið að halda röð funda með starfsmönnum og sagt er að nota eigi tillögur frá þeim við endurskipulagningu fyrirtækisins, en þetta er aðferðafræði sem gott er að nota þar sem hópur A veit ekkert hvað hópur B lét frá sér fara, þannig að stjórnendum er í lófa lagið að segja við starfsfólk þegar þeir fara að endurskipuleggja að þeir séu bara að framkvæma þær tillögur sem komu frá starfsmönnum. Þetta er klók stjórnun!

Mér finnst að þeir stjórnarmenn sem nú sitja í stjórn og voru í fyrrverandi stjórn ættu að sjá sóma sinn í því að hverfa á braut, og biðjast afsökunar á því hvernig komið er fyrir starfsmönnum sem verða að kveðja og hafa ekkert að hverfa til nema atvinnuleysisbætur.

Það eina sem ég veit varðandi uppsagnir er að þeir stjórnendur sem í dag ráða ríkjum hjá OR ætla að fara mjög mildum höndum um þá sem verða látnir fara, og aðstoða þá eins og hægt er varðandi atvinnuumsóknir og fleira.








Skoðun

Sjá meira


×