Erlent

Ný leyniregla kölluð P3 gerir Berlusconi lífið leitt

Gamall draugur frá fyrri tíð gerir Slivio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu lífið leitt þessa daganna.

Leynireglur og félög eru samofin sögu Ítalíu síðustu aldirnar. Nú er ein slík leyniregla komin í sviðsljós fjölmiðla en hún þykir minna um margt á frímúrararegluna P2.

P2 tókst á árunum í kringum 1980 að koma meðlimum sínum fyrir í mörgum lykilstöðum í ítalska stjórnkerfinu. Meðlimirnir voru stjórnmálamenn, herforingjar, leyniþjónustumenn og Berlusconi núverandi forsætisráðherra.

Vegna samlíkingarinnar er hin nýja leyniregla kölluð P3, að því er segir í umfjöllun tímaritsins The Economist um málið. Meðlimir hennar eru meðal annarrs sagðir vera Marcello Dell´Utri sem stendur í réttarhöldum vegna tengsla sinna við mafíuna og Flavio Carboni. Carboni er viðskiptamaður sem eitt sinn var ákærður fyrir morðið á bankamanninum Roberto Calvi. Sá var háttsettur meðlimur P2 á sínum tíma. Carboni var sýknaður af morðákærunni en er nú kominn aftur fyrir dómara vegna P3 málsins.

Meðal þess sem P3 er gefið að sök er að hafa rannsakað kynlíf andstæðinga Berlusconi í stjórnmálum, reynt að hafa áhrif á viðkvæmar rannsóknir í spillingarmálum og reynt að hafa áhrif á afstöðu dómaranna sem kváðu upp úrskurð um hvort Berlusconi sem forsætisráðherra væri undanskilinn lögsóknum.

Fram kemur í The Economist að meðlimir P3 tala ætíð um foringja sinn sín í millum undir dulnefninu Caesar. Upplýsingar úr símhlerunum benda hinsvegar til að Caesar sé ekki Berlusconi.

Þess má einnig geta að í kjölfar P2 málsins voru sett lög á Ítalíu sem banna starfsemi slíkra leynireglna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×