Lífið

Sammi hitti átrúnaðargoðið í Noregi

Samúel J. Samúelsson ásamt átrúnaðargoðinu Tony Allen á tónlistarhátíðinni í Noregi.
Samúel J. Samúelsson ásamt átrúnaðargoðinu Tony Allen á tónlistarhátíðinni í Noregi.
„Hann var ferlega flottur," segir Samúel Jón Samúelsson sem hitti eitt af átrúnaðargoðum sínum, nígeríska trommuleikarann Tony Allen, á Nattjazz-tónlistar-hátíðinni í Noregi. Þar spilaði Samúel ásamt Stórsveit sinni deginum á undan Allen við góðar undirtektir.

Trommarinn er þekktur fyrir að hafa spilað með landa sínum Fela Kuti í rúman áratug og er einn af mönnunum á bak við „afrobeat-" tónlistarstefnuna.

Undanfarin ár hefur hann spilað með ýmsum flytjendum, þar á meðal Damon Albarn, Sebastian Tellier og hljómsveitinni Air.

„Við fórum baksviðs eftir tónleikana hans með nokkur plötuumslög til að láta hann krota á þau. Ég spjallaði við hann og var óbeint að reyna að fá hann til að koma hingað einhvern tímann að spila," segir Sammi. Allen tók vel í það og setti það sem skilyrði að hann fengi að kynnast hinu víðfræga íslenska næturlífi.

„Hann var ferlega viðkunnanlegur og alveg á jörðinni. Honum fannst leiðinlegt að fara þegar skipuleggjandi tónleikaferðarinnar vildi draga hann á hótelið."

Sammi segir að Allen hafi haft mikil áhrif á sína tónlistarsköpun.

„Hann er alveg einstakur músíkant og einstakur trommuleikari. Hann kom með algjörlega nýja nálgun á trommusettið. Ef einhverjir tónlistarmenn hafa ekki tékkað á honum eiga þeir að setja það efst á listann."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.