Lífið

Vilja tískuverslun í Skífuna við Laugaveg

Jakob Frímann miðborgarstjóri var viðstaddur opnun Skífunnar á sínum tíma og segir þetta hafa verið glæsilegustu tónlistarverslun landsins.
Jakob Frímann miðborgarstjóri var viðstaddur opnun Skífunnar á sínum tíma og segir þetta hafa verið glæsilegustu tónlistarverslun landsins.

Fjölmargir aðilar hafa lýst yfir áhuga á verslunarhúsnæði Skífunnar á Laugaveginum. Plötubúðin hættir starfsemi þar í sumar og verður eingöngu starfrækt í Kringlunni.

„Ég hef engar áhyggjur af því að þetta húsnæði standi laust lengi," segir Jakob Frímann Magnússon miðborgarstjóri. „Það hafa mjög margir sýnt áhuga á að fara þarna inn með hönnun, tískuvöru og þess konar sérvöru. Það er slegist um þessi góðu verslunarpláss á Laugaveginum."

Að sögn Jakobs Frímanns hefur brotthvarf Skífunnar úr húsnæðinu legið lengi í loftinu. „Þetta er auðvitað eitthvað sem er búið að stefna í um nokkurt skeið hér sem annars staðar. Stórar hljómplötuverslanir hafa verið að skella í lás hver af annarri," segir hann og á þar við Virgin Megastore sem lokaði í New York í desember auk þess sem stórum plötuverslunum á Oxford Street í London hefur fækkað að undanförnu.

Jakob kennir ólöglegu niðurhali á tónlist um lokun búðarinnar og vill ekki meina að Skífan hafi verið illa rekin.

„Þetta er besti staður til að hafa verslun í miðborginni en miðað við hvað stór hluti tónlistarneytenda er kominn í netheiminn þá var þetta ekki raunhæft lengur," segir hann og bætir þessu við um niðurhalið: „Ég hef áhyggjur af því hversu illa og seint gengur að fá hina nýju tækni til að skila hagnaði inn í kerfið og núna þolir þetta ekki lengri bið. Þetta er stærsta verkefni tónlistarbransans í dag og það þarf að taka á því áður en það brestur á með atgervisflótta úr greininni. En ég er bjartsýnn á að við stöndum núna við þröskuld þar sem við horfum inn í nýjan heim."

Jakob er fullviss um að ný og öflug verslun komi í staðinn fyrir Skífuna. „Við kveðjum Skífuna auðvitað með söknuði. Ég var viðstaddur opnunina á sínum tíma og þetta var glæsilegasta tónlistarverslun sem hafði litið dagsins ljós á Íslandi. En það brustu forsendur fyrir þessari tilteknu vöru." Hann tekur fram að smærri plötuverslanir á borð við 12 Tóna og Havarí muni í staðinn annast plötusöluna í miðborginni.

Verslunin Skífan á Laugaveginum hættir starfsemi í sumar. Óvíst er hvaða verslun kemur í hennar stað en sumir vilja reka þar tískuverslun.

Húsnæði Skífunnar er í eigu fasteignafélagsins Reitir. Í samtali við Fréttablaðið staðfesti Inga Rut Jónsdóttir, forstöðumaður hjá Reitum, að nokkrir aðilar hefðu haft samband út af húsnæðinu. Sumir vilji reka þar tískuverslun en aðrir hafi annars konar rekstur í huga. Hún vildi ekki greina frá því hvað kosti að leigja húsnæðið og gat heldur ekki sagt til um hvenær samið yrði við nýjan rekstraraðila.

Stutt er síðan Fréttablaðið greindi frá brotthvarfi Regnbogans úr miðborginni og núna fylgir Skífan í kjölfarið. Þrátt fyrir það örvæntir Jakob Frímann ekki. „Því má ekki gleyma að það er verið að leggja lokahönd á „cinematheque" í Tjarnarbíói og því ber líka að fagna að Austurbæjarbíó er að verða að öflugu sýningarhúsi á ný. Eitt hverfur á braut og annað kemur í staðinn," segir hann um leið og hann kveður Regnbogann og Skífuna. „Við þökkum því góða fólki fyrir samferðina. Síðan kemur eitthvað skemmtilegt og ferskt vonandi í staðinn."

freyr@frettabladid.is














Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.