„Mig langaði bara til að gefa vínyl. Var þetta dýrt? Jú, kannski, en eru ekki sumir með jeppadellu? Þetta var bara eitthvað sem mig langaði til að gera,“ segir Ummi Guðjónsson, tónlistamaður og tæknibrellutröll, sem var að senda frá sér glæsilegan vínyl-pakka.
Ekki hefur mikið verið fjallað um tónlistarhæfileika Umma í rúm fjórtán ár, eða síðan hin vinsæla hjómsveit hans, Sólstrandargæjarnir, lagði upp laupana. Hins vegar hefur aðeins meira verið gert úr starfi hans í kvikmyndaheiminum en Ummi hefur unnið við tæknilega útfærslu kvikmynda á borð við Avatar, The Golden Compass og Where the Wild Things Are auk Harry Potter and the Goblet of Fire.
Ástæðan fyrir tímasetningu útgáfunnar er ofur einföld, að sögn Umma. „Platan var einfaldlega tilbúin. Ég er búinn að vera dútla mér við þetta undanfarin ár og núna var verkið bara búið. Ég var samt ekkert búinn að ákveða hvort ég ætti að gefa þetta út, en svo lét ég bara vaða,“ útskýrir Ummi.
Umslagið er feykilega metnaðarfullt og því fylgir svokallaður usb-kubbur fyrir þá sem ekki eiga plötuspilara. Ummi viðurkennir að þarna hafi blandast saman tónlistin og svo tæknibrelluvinnan. „Ég hafði alveg óskaplega gaman af því að gera þetta,“ segir Ummi. Um þessar mundir er hann að vinna við nýja mynd frá teiknimyndarisanum Pixar sem Andrew Stanton, handritshöfundur Toy Story og leikstjóri mynda á borð við Wall-E og Finding Nemo, er að gera. Ummi segir þetta vera einstakt tækifæri fyrir sig. „Þetta er það sem mig dreymdi alltaf um að gera.“ - fgg
Tæknibrellutröll gefur út á vínyl
