Viðskipti innlent

Fyrsta hækkun íbúðaverðs í borginni frá ágúst í fyrra

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,4% í janúar frá fyrri mánuði. Þessi hækkun kemur í kjölfar mikilla lækkana undanfarna mánuði en íbúðaverð hefur ekki hækkað milli mánaða síðan í ágúst síðastliðnum.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að á síðustu tólf mánuðum hefur íbúðaverð lækkað um 10,2% að nafnvirði en um 19,0% að raunvirði m.v. vísitölu neysluverðs án húsnæðis.

Skýrist hækkunin nú í janúar einkum af 3,3% hækkun á verði sérbýlis milli mánaða en verð á fjölbýli lækkaði um 0,3%. Þrátt fyrir þessa hækkun á verði sérbýlis í janúar hefur verð þess lækkað meira en verð á fjölbýli á síðustu tólf mánuðum, eða að nafnvirði um 11,4% samanborið við 9,7% verðlækkun fjölbýlis. Það var Fasteignaskrá Íslands sem birti upplýsingar um vísitölu íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu í gær.

Á markaði sem er jafn lítill og íbúðamarkaðurinn er á höfuðborgarsvæðinu um þessar mundir er óráðlegt að taka verðsveiflur milli einstakra mánaða í mælingum Fasteignaskrárinnar of bókstaflega. Makaskiptasamningar eru teknir út þegar verðþróunin er metin af Fasteignaskránni, en slíkir samningar hafa verið ríflega þriðjungur allra viðskipta á markaðinum undanfarna mánuði.

Það sem eftir stendur getur vart talist þverskurður af eðlilegum markaði og geta einstök viðskipti skekkt myndina talsvert. Eykur þetta flökt í gögnum milli mánaða.

„Við teljum að þessi hækkun nú í janúar sé aðeins tímabundið flökt á leið íbúðaverðs til frekari lækkunar. Ljóst er að umhverfið á íbúðamarkaði er enn erfitt sem endurspeglar hvort tveggja framboðs- og eftirspurnarhlið markaðarins," segir í Morgunkorninu.

„Hin mikla uppsveifla undanfarinna ára á íbúðamarkaði hefur orðið til þess að enn er nokkur fjöldi óseldra íbúða eftir á framboðshlið markaðarins nú þegar ládeyða hefur verið á þessum markaði sem skapar þrýsting til verðlækkunar.

Jafnframt hafa fjármálastofnanir eignast mikið af íbúðarhúsnæði á undanförnum mánuðum og er ljóst að þessar stofnanir þurfa með tímanum að losa um slíkar fasteignir sem augljóslega mun einnig skapa frekari þrýsting til verðlækkunar. Jafnframt er þess að vænta að hagur heimilanna versni enn á næstunni. Þannig er spáð að atvinnuleysi, sem nú er þegar mikið, fari vaxandi og haldist mikið alveg fram á næsta ár og kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna rýrni enn frekar.

Því er vandséð hvað í efnahagsumhverfi heimilanna ætti að vera að kalla á aukin umsvif á íbúðamarkaði og þá verðhækkun íbúðaverðs. Til viðbótar má benda á að lækkun íbúðaverðs hefur verið frestað að vissu marki þar sem enn er ekki búið að leysa að fullu vanda þeirra sem ráða ekki við afborganir lána sinna og eru í neikvæðri eiginfjárstöðu. Sú leiðrétting á eftir að eiga sér stað og mun hún eflaust kalla á lækkun íbúðaverðs."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×