Skoðun

Hverjir vilja hringla með gengið?

Talið er nú að vel á annað hundrað aðilar séu handhafar kvóta til fiskveiða í landhelgi Íslands. Allt frá því að það fyrirkomulag var tekið upp, sem sjálfsagt var til að hamla gegn ofveiði, hefur átt sér stað sífelld og vaxandi togstreita um þessi kvótaréttindi. Var kvótinn bundinn við ákveðin skip, en án þess þó að það skip þyrfti endilega að veiða hann.

Vandræðin hófust þegar þeir sem fengu kvótann ókeypis fóru að selja þessi réttindi dýrum dómum sín í milli og slá lán í fjármálastofnunum út á óveiddan fisk. Stundum tíðkaðist að hafa skipin bundin við bryggju og leigja kvótann eða selja. Nú er útgerðin sem heild stórskuldug, sem bendir til að einhvers staðar hafi verið maðkur í mysunni. Og ýmislegt fleira er nú til ama.

Í fyrsta lagi hafa núverandi stjórnvöld verið með tilburði til að koma á svonefndri fyrningarleið í sjávarútvegi til þess að vinda ofan af því misrétti og svindli sem þar viðgengst og tryggja að þjóðin fái sanngjarnan arð af þessari auðlind sinni. Í öðru lagi hefur Alþingi samþykkt að sækja um aðild að ESB. Með aðild að ESB myndi evran trúlega verða okkar framtíðargjaldmiðill, þar sem stjórnvöld gætu ekki hringlað með gengið eins og gert hefur verið með vesalings krónuna okkar eftir stundarhagsmunum LÍÚ á umliðnum árum. En kannski eiga einhverjir slíka drauma?

Þess vegna var landsfundur Sjálfstæðisflokksins látinn samþykkja að draga ætti þessa umsókn Alþingis til baka tafarlaust. Miklu moldroki er þyrlað upp til að ófrægja ESB og fátt til sparað.

Í slagtogi með þessu liði er svo bændaforystan sem telur sér ógnað með því að missa núverandi styrkjakerfi, þótt vitað sé að Ísland fellur allt undir ákvæði ESB um búskap á norðlægum slóðum og þau fríðindi sem því fylgja. Þetta nýja blá-rauð-græna bandalag er samstiga félagsskapur sem nefnir sig „Heimssýn“ (mjög táknrænt nafn). Þar að auki hafa ýmsar tegundir af þjóðrembukverúlöntum viljað láta rödd sína heyrast í þessum endemis „þjóðkór“. Merkisberi þessarar fylkingar er svo sjálft Morgunblaðið, sem reyndar berst í bökkum fjárhagslega og lifir eins og tilberi á spena hinna stórskuldugu útgerðarkónga og -drottninga Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×