Skoðun

Náum sjálf í fundatekjurnar

Frá hausti og fram á vor eru verðmætustu ferðamennirnir á kreiki. Þetta er fólkið sem sækir fundi, ráðstefnur og sýningar víðs vegar um heim. Þessir ferðamenn skila tvöfalt meiri tekjum en „venjulegir“ túristar.

Það er hörku slagur um þennan markað. Íslenska ferðaþjónustan fær pínulítinn skerf af honum, en það er hægt að stækka þá köku ef allir leggja hönd á plóginn.

Flestir erum við Íslendingar í einhverjum tengslum við vini, viðskiptavini, samstarfsmenn eða vandamenn erlendis. Hvert einasta okkar hefur beinan möguleika á að auka tekjur okkar af erlendum ferðamönnum – og það utan háannatímans. Aðferðin er einföld.Vekjum athygli erlendra vina okkar og samstarfsfélaga á hvað Ísland er góður staður fyrir næsta fund eða ráðstefnu. Stingum upp á að hittast hér á landi. Það þarf ekki að vera stór viðburður. Tíu manna fundur er góð búbót yfir vetrartímann. Sama er að segja um tólf manna dansæfingu eða tuttugu manna námskeið. Allt telur.

Mjög auðvelt er að færa sterk rök fyrir því að hittast hér á landi. Ísland þykir spennandi áfangastaður, ekkert síður að vetri til en að sumarlagi. Sjaldan eða aldrei hefur ferðafólk fengið jafn mikið fyrir peninginn hér á landi og einmitt núna. Þetta tvennt er það sem mestu máli skiptir þegar fundarstaðir „erlendis“ eru ákveðnir: spennandi áfangastaður og „value for money“. Við erum að tala um Ísland.

Það er ekki eftir neinu að bíða. Sendum tölvupóst á þá sem við þekkjum erlendis. Kveikjum áhuga þeirra á Íslandi og komum þeim í samband við aðila í ferðaþjónustu sem geta séð um hópinn.



Skoðun

Sjá meira


×