Viðskipti innlent

Formaður Landsvaka kærður til saksóknara

Fjármálaeftirlitið hefur kært Stefán H. Stefánsson, fyrrverandi stjórnarformann Landsvaka, peningamarkaðssjóða Landsbankans, til sérstaks saksóknara fyrir alvarlegt brot á bankaleynd en Stefán sendi bankastjórum Landsbankans trúnaðarupplýsingar um einstaka viðskiptavini sjóðanna þvert gegn fyrirmælum laga.

Stjórnarmönnum, framkvæmdastjórum og öðrum starfsmönnum fjármálafyrirtækja er óheimilt að greina frá neinu sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og snertir viðskipta- eða einkamálefni viðskiptavina, en það kemur fram í lögum um fjármálafyrirtæki. Í sömu lögum er undanþága um upplýsingagjöf til móðurfélags en nún nær ekki til málefna einstakra viðskiptavina.

Stefán H. Stefánsson, fyrrverandi forstöðumaður eignastýringarsviðs Landsbankans og stjórnarformaður Landsvaka, sem rak m.a peningamarkaðssjóði Landsbankans, er grunaður um brot á bankaleynd með því að hafa á árinu 2008, fyrir bankahrunið, sent stjórnendum Landsbankans, þeim Sigurjóni Þ. Árnasyni og Halldóri J. Kristjánssyni, trúnaðarupplýsingar um viðskiptavini Landsvaka. Um er að ræða viðkvæm trúnaðargögn sem snerta fjárhagsstöðu nafngreindra einstaklinga og skuldbindingar þeirra gagnvart Landsvaka.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er ekki ljóst í hvaða skyni Stefán sendi bankastjórunum trúnaðargögn um viðskiptavini, en litið er svo á að um alvarlegt brot á bankaleynd sé að ræða. Rannsókn mun m.a beinast að því að upplýsa í hvaða tilgangi trúnaðarupplýsingar um einstaka viðskiptavini hafi verið sendar bankastjórunum tveimur.

Stefán H. Stefánsson og Sigurður Óli Hákonarson, framkvæmdastjóri Landsvaka, óskuðu sjálfir eftir því að láta af störfum hjá Landsbankanum hinn 29. nóvember 2008. Þetta gerðu þeir til að skapa frið um Landsvaka og engar vísbendingar eru um að meint brot Stefáns tengist uppsögn hans.

Brot gegn bankaleynd varðar sektum eða fangelsi allt að tveimur árum ef sakir eru miklar. FME er ekki skylt að vísa brotum á bankaleynd til lögreglu nema eftirlitið telji þau vera „meiriháttar" í skilningi laga um fjármálafyrirtæki og er það tilfellið í máli Stefáns.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×