Skoðun

Jón Erlendsson: Ófagleg vinnubrögð

Jón Erlendsson skrifar

Á fundi stjórnar Fasteigna Akureyrar, þeim síðasta á kjörtímabilinu föstudaginn 21. maí s.l., samþykkti meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, með fulltingi Framsóknarflokksins, að hönnunarsamninga vegna nýs hjúkrunarheimilis í Naustahverfi skuli gera án almenns útboðs. Gera á verðfyrirspurn til nokkurra þóknanlegra aðila á Akureyri og semja svo við þá eftir hendinni um hina ýmsu verkþætti hönnunarinnar. Áætlað er að byggingarkostnaður hjúkrunarheimilisins verði um 1600 Mkr. Þar af má gera ráð fyrir að hönnunarkostnaður verði 80-100 Mkr. Þessi gjörningur er brot á Innkaupareglum Akureyrarbæjar eins og viðkomandi stjórnarmönnum Fasteigna er vel kunnugt, enda tóku þeir sumir hverjir sjálfir þátt í að semja þær á sínum tíma. Rökin sem fram eru færð þessu gerræði til varnar eru:

1) Ekki er tími til að fara að réttum reglum vegna þess að framkvæmdir þarf að hefja sem fyrst.

2) Eftir opið útboð gæti farið svo að semja yrði við menn sem ekki eru Akureyringar.

Það er skemmst frá því að segja undirritaður fulltrúi VG í stjórn FAK trúði varla sínum eigin eyrum og þurfti að láta segja sér tvisvar þegar fyrir lá að bæjarfulltrúar meirihlutans ætluðu að enda kjörtímabilið í þvílíkri hyldýpislægð lágkúrunnar. Það er alveg sama frá hvaða hlið málið er skoðað, það er frá öllum sjónarhornum séð óverjandi og allar þær reglugreinar, skráðar og óskráðar, sem það stendur gegn, yrði hér of langt upp að telja. Hugtakið "verslunarfrelsi" verður hér eitt látið duga, og sjálfstæðismönnum bent á að rifja upp fyrir sér hvað það orð þýðir, eins tamt og það hefur verið þeim á tungu - frelsið er ekki aðeins til að skara eld að eigin köku. Auðvitað gengur ekki að útiloka arkitekta- og verkfræðistofur utan Akureyrar frá því að bjóða í verk hér í bænum, enda myndu þau vinnubrögð, ef almenn væru, bitna harðast á okkar eigin fólki þegar kemur að verkum annarsstaðar.

Eins og geta má nærri greiddi VG atkvæði á móti þessum gjörningi, enda skýrt í stefnuskrá flokksins að bjóða eigi út slík verk á opnum útboðsmarkaði og fara eigi í hvívetna að reglum um opinber innkaup og Innkaupastefnu Akureyrar. Öðruvísi verður sú faglega, heiðarlega og lýðræðislega stjórnsýsla sem nú er kallað eftir í íslensku samfélagi ekki tryggð.

Jón Erlendsson, stjórn Fasteigna Akureyrarbæjar fyrir VG og skipar 4 sæti á lista hreyfingarinnar fyrir komandi kosningar.






Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×