Viðskipti innlent

Faxaflóahafnir samþykkja viðræður um hótelbyggingu

Stjórn Faxaflóahafna hefur samþykkt að ganga til viðræðna við Hafnarhótel ehf. um byggingu á 120 herbergja hóteli við Ægisgarð. Samkvæmt hugmyndum forráðamanna Hafnarhótel er m.a. gert ráð fyrir fullkominni sundlaug í hótelinu sem yrði opin almenningi.

Stjórn Faxaflóahafna hélt aukafund um málið í vikunni og þar var eftirfarandi bókað: „Lóðin við Ægisgarð er staðsett á áberandi og einstökum stað á hafnarsvæðinu. Mikilvægt er að sátt ríki um uppbygginguna, að sú bygging sem rísa mun á lóðinni sé í háum gæðaflokki, hún falli vel að umhverfi hafnarinnar og að starfsemin styðji við fjölbreytt mannlíf svæðisins.

Stjórn Faxaflóahafna sf. veitir hafnarstjóra heimild til að ganga til viðræðna við fulltrúa Hafnarhótelsins ehf. um byggingarrétt og annað sem tengist fyrirhuguðum framkvæmdum og byggingu hótels á umræddri lóð.

Fyrirvarar á slíkum viðræðum varða aðkomu stjórnar að samningum, að skipulagsyfirvöld, að höfðu samráði við borgarbúa og aðra hagsmunaaðila, samþykki breytt deiliskipulag sem tekur tillit til hótelrekstrar og byggingar af þeirri stærðargráðu sem sóst er eftir.

Auk þess gerir stjórnin fyrirvara þess efnis að áreiðanleikakönnun verði lögð fram áður en gengið verði til samninga. Hafnarstjóri haldi stjórn upplýstri um framgang viðræðnanna og önnur atriði er málið varða og koma fram í minnisblaði um málefni sem fjalla þarf um."

Á bakvið Hafnarhótel ehf. eru erlendir fjárfestar og ABZ sem stendur fyrir arkitektana Arkís, Guðjón Bjarnason og Carlos Zapata. Egill Guðmundsson arkitekt hjá Arkís hefur áður sagt í samtali við visir.is að hótel þetta gæti orðið mikil lyftistöng fyrir hafnarsvæðið og að framkvæmdin spili vel inn í aðrar framkvæmdir á svæðinu eins og t.d. tónlistarhúsið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×