Erlent

Þúsundir manna að störfum vegna olíulekans í Mexíkóflóa

Mynd/AP
Nokkur þúsund manns reyna að stemma stigu við olíulekanum í Mexíkóflóa. Slæmt veður fyrr í vikunni stóð hreinsunaraðgerðum fyrir þrifum en nú reyna menn að nýta tímann vel. Meðal þeirra sem koma að aðgerðunum eru starfsmenn strandgæslunnar, breska olíurisans BP, liðsmenn þjóðvarðliðsins og fjölmargir sjálfboðaliðar. Víðsvegar hafa verið settar upp baujur, flotgirðingar og net til að koma í veg fyrir útbreiðslu olíuflekksins.

Það var 20. apríl síðastliðinn sem stór olíuborpallur sökk í flóanum með þeim afleiðingum að olía hefur lekið í hafið og ógnar fiskimiðum, fjölbreyttu dýralífi við ströndina og stórum fenjasvæðum í kring sem eru mikilvæg fyrir margar plöntur og fugla. Um 800 þúsund lítrar af olíu streyma út í hafið á degi hverjum.

Í dag tókst að loka fyrir leka úr einni af þremur borholum á botni Mexíkóflóa. Þá var siglt af stað með heljarinnar hvelfingu á pramma sem reynt verður að koma fyrir á hafsbotni til að stöðva lekann úr einni borholunni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×