Skoðun

Auðkennistákn í Reykjavík

Valgarður Egilsson skrifar
Íslendingar hampa oft uppruna sínum frá víkingum. Óvíst er hvort margir landnámsmanna höfðu verið í víking í alvöru. En í lífsmáta víkinga örlar varla á heimspeki né húmanisma.

Gott væri að losa sig við það orð sem á okkur liggur, að við séum af víkingum komin. Slík var grimmd þeirra og villimennska, og slíkur var skortur á heimspeki og húmanisma hjá þeim.

Árásin á Lindesfarne árið 793: múnkar klaustursins yfir bókum sínum flytja þakkargjörð skapara sínum, í aðdáun og góðvild. Nú hafa læðst að klaustrinu vopnaðir menn - skyndilega stökkva upp 60 hrottar með öskrum og orgi: Drepum, drepum! Og ráðast á óviðbúna múnkana: Drepum, drepum!! orga þeir. Og brytja þá niður hlífðarlausa.

Og svo hrósa þeir sér af þessu víkingarnir. Og afkomendur hampa þessu sem afrekum.

Víkingar hafa að líkindum verið huglausir - samskonar flokka-árásir nota hýenur - en ránseðlið keyrir þá áfram og græðgin. Ja þvílík afrek ! (óviðeigandi er orðið kúltúr yfir þvílíka bleyðimennsku). Svo spinna þeir upp sögur um drengskap og göfgi.

Afkomendur landnámsmanna unnu þó afrek sem maður getur verið stoltur af. Þeir skrifuðu bókmenntir og þeir sigldu til landkönnunar. Gott væri að ítreka þá minningu. Mætti reisa á Lækjartorgi mynd-skúlptúr sem minnti á ritun sagna og landkönnun.

Það vantar einmitt í miðju Reykjavíkur eitthvert auðkenni það sem ferðamenn okkar geti miðað við - auðkenni sem sé það áberandi að allir átti sig á því. Nú er staðan sú, að búi tveir ferðamenn hvor á sínu hótelinu þá vita þeir ekki hvar þeir geti mælt sér mót - ekkert örnefni er til í mið-Reykjavík nægilega þekkt til þess, enginn staður nægilega þekktur né áberandi til þess.

Legg til að skúlptúr verði reistur á Lækjartorgi, mætti tákna ritandi hönd, eða sýna seglskip, helst hvort tveggja. Skúlptúrinn skagi dáldið hátt upp svo sjáist langt að; efnið í myndina sé ekki massi, en minni heldur á strik. Beita má nýrri tækni: ljósi breytileika, hreyfingu.

Ritandi hönd. Auðkennistákn Reykjavíkur. Writers and Seafarers. (Hefðum auðvitað átt að hafa torg í miðju borgar).

 




Skoðun

Sjá meira


×