Skoðun

Kennarar: Einhliða umfjöllun um Iðnskólann í Hafnarfirði

Ragnhildur Guðjónsdóttir, Gréta Ágústsdóttir, Einar Sigurðsson og Sæmundur Stefánsson og Helga Jóhanna Baldursdóttir skrifa

Stjórn Kennarafélags Iðnskólans í Hafnarfriði harmar einhliða umfjöllun Fréttablaðsins um málefni skólans þar sem látið er í það skína að í skólanum starfi tvær fylkingar kennara sem eigi í endalausum útistöðum.

Hið rétta er að í skólanum er almennt mjög góður starfsandi fyrir utan örfáa einstaklinga sem ekki hafa getað hætt árásum á skólann og starfsmenn hans síðan launamáli starfsmanna lauk fyrir Félagsdómi í maí 2009.

Sérstaklega harmar félagið það vantraust sem þessir örfáu starfsmenn og þá aðallega fyrrverandi starfsmenn lýsa yfir á alla núverandi starfsmenn skólans með því að telja engan þeirra hæfan til að gegna stöðu skólameistara skólans.

Iðnskólinn í Hafnarfirði er eini Iðnskólinn á landinu og er það einlæg von og ósk okkar í stjórn Kennarafélagsins að hann verði það áfram. Að Iðnskólinn haldi áfram að blómstra með allt það faglega og góða starf sem þar hefur verið unnið undir stjórn núverandi skólameistara Jóhannesar Einarssonar.

Enginn þekkir skólann og starfsemi hans betur en þeir sem við hann starfa og telur því stjórn Kennarafélags Iðnskólans í Hafnarfirði að það gæti farið vel á því að nýr skólameistari kæmi úr röðum núverandi starfsmanna skólans.

Stjórn Kennarafélags Iðskólans í Hafnarfriði

Ragnhildur Guðjónsdóttir

Gréta Ágústsdóttir

Einar Sigurðsson

Sæmundur Stefánsson

Helga Jóhanna Baldursdóttir








Skoðun

Sjá meira


×