Erlent

Fyrrverandi utanríkisráðherra Mexíkó vill lögleiða Maríjúana

MYND/AP

Bandaríkin og Mexíkó ættu að lögleiða Maríjúana og slá þannig vopnin úr höndum eiturlyfjahringa sem þrífast við landamærin. Þetta segir fyrrverandi utanríkisráðherra Mexíkó, Jorge Castaneda í viðtali á CNN sjónvarpsstöðinni. Hann segir það fáránlegt að Mexíkanar reyni hvað þeir geti til þess að stoppa flæði eiturlyfa yfir til Bandaríkjanna á meðan notkun þess hefur verið leyfð í Kalíforníu gegn framvísun lyfseðils.

Hann bendir á tölur frá Fíkniefnalögeglunni bandarísku sem áætlar að um 60 prósent af hagnaði Mexíkönsku eiturlyfjahringanna komi frá innflutningi og sölu á maríjúana. Hann segir samt að það sé þýðingarlaust að reyna þetta sunnan landamæranna ef bandarísk yfirvöld taki ekki þátt. Castaneda gagnrýnir einnig harðlega forseta Mexíkó Felipe Calderone, fyrir að lýsa yfir stríði gegn eiturlyfjahringunum, en talið er að 17 þúsund manns hafi týnt lífi í þeim átökunum síðan Calderone tók við embættinu í desember 2006.

900 manns féllu í janúar á þessu ár og hefur tala látinna aldrei verið hærri í einum mánuði. 45 þúsund mexíkanskir hermenn aðstoða nú lögregluna í bæjum og borgum við landamæri Bandaríkjanna í baráttunni við eiturlyfjahringina.

Tollayfirvöld í bandarísku borginni San Diego, sem er við landamæri Mexíkó, fundu í gær tæpt tonn af Maríjúana falið í flutningabíl sem var að flytja banana yfir landamærin. Eitulyfjahundar þefuðu efnið uppi en virði þess á götum Bandaríkjanna er talið slaga í hundrað milljónir íslenskra króna. Aðeins er vika síðan enn stærri smyglsending uppgötvaðist á sömu landamærastöð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×