Erlent

Leiddur fyrir aftökusveit í Utah

MYND/AP

Bandaríkjamaðurinn Ronnie Lee Gardner var í nótt tekinn af lífi í Utah ríki. Hann var skotinn til bana af aftökusveit. Gardner var 49 ára gamall og hann hafði dvalið á dauðadeild í 25 ár fyrir að myrða lögfræðing árið 1985 þegar hann reyndi að flýja úr dómshúsi í Utah þar sem réttað var yfir honum vegna annars morðs. Hann var leiddur fyrir aftökusveit og skotinn en fimm sjálfboðaliðar úr lögreglunni framkvæmdu aftökuna.

Slík aftökuaðferð hefur ekki verið notuð í 14 ár í Bandaríkunum og var Gardner þriðji maðurinn sem tekinn er af lífi með þessum hætti frá árinu 1976. Í Utah ríki var aðferðin bönnuð árið 2004 en áður en það var gert hafði Gardner valið þessa aðferð umfram eitursprautuna sem venjulega er notuð. Af þeim níu sem sitja á dauðadeildinni í Utah og geta valið um aftökuaðferð hafa fjórir kosið að láta skjóta sig.

Rifflar lögreglumannanna voru hlaðnir með 30 kalíbera kúlum en einn riffillinn var með púðurskoti. Það er gert til þess að enginn þeirra geti vitað með vissu að þeir hafi í raun tekið manninn af lífi. Gardner var síðan bundinn í stól og skotinn af tæplega átta metra færi. Síðasta degi sínum eyddi Gardner í að horfa á bíómyndirnar gerðar eftir Hringadróttinssögu. Síðasta kvöldmáltíð hans samanstóð af steik og humri og í eftirrétt fékk hann eplaböku með ís.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×